Innlent

Sýrlenskir flóttamenn á leið á Hvammstanga

Kjartan Kjartansson og Nadine Guðrún Yaghi skrifa

Tuttugu og þrír sýrlenskir flóttamenn komu til landsins síðdegis í dag, tíu fullorðnir og þrettán börn, og kemur annar eins fjöldi til landsins á morgun. Fólkið hefur dvalið í flóttamannabúðum í Líbanon undanfarin ár en flytur nú á Hvammstanga og Blönduós. Hópurinn sem kom í dag, kom við á veitingastað í Grafarvogi áður en haldið var áfram til Hvammstanga.

Ferð flóttafólksins til Íslands gekk eftir áætlun að sögn Lindu Rósar Alfreðsdóttur, sérfræðings hjá velferðarráðuneytinu. Þau lögðu af stað frá Beirút í Líbanon klukkan fjögur í morgun og flugu í gegnum Tyrkland og Finnland.

Íslensk stjórnvöld taka á móti 75 flóttamönnum á þessu ári. Tuttugu Sýrlendingar til viðbótar koma á morgun en sá hópur fer til Blönduóss. Í september koma fleiri hópar sem setjast að á Seltjarnarnesi, í Garðabæ og fleiri sveitarfélögum.

„Það eru örugglega mjög blendnar tilfinningar. Það er ávallt erfitt að þurfa að yfirgefa landið sitt og þau eru búin að vera núna í tæp fimm ár í Líbanon en vilja mjög gjarnan eiga framtíð fyrir börnin sín og þetta er tækifæri sem þau fá. Þetta er auðvitað kannski nýr kafli í lífi þeirra. Það er margt auðvitað spennandi en auðvitað eru þau einnig kvíðin. Þetta tekur sinn tíma að setjast að í nýju samfélagi,“ sagði Linda Rós í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.