Umfjöllun: KR - ÍR 98-70 | KR Íslandsmeistari sjötta árið í röð

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jón Arnór smellir kossi á Íslandsmeistarabikarinn.
Jón Arnór smellir kossi á Íslandsmeistarabikarinn. vísir/daníel þór
KR er Íslandsmeistari í körfubolta sjötta árið í röð eftir sigur á ÍR í oddaleik í DHL höllinni í vesturbæ Reykjavíkur í dag. Sigurinn var aldrei í hættu og endaði leikurinn með 98-70 sigri KR.

Michele di Nunno byrjaði leikinn af miklum krafti fyrir KR og skoraði níu fyrstu stig heimamanna, öll úr þristum. Þristarnir frá di Nunno virtust slá ÍR-inga aðeins niður því KR komst í 14-5 áður en Borche Ilievski tók leikhlé og náði að vekja sína menn aðeins til lífsins.

Gestirnir náðu smá áhlaupi og Sigurður Gunnar Þorsteinsson minnkaði muninn niður í tvö stig þegar stutt var eftir af fyrsta leikhluta, staðan var 22-20 að honum loknum.

ÍR-ingar voru hins vegar ekki í takti. Þeir náðu ekki að skora í öðrum leikhluta fyrr en um fjórar mínútur voru liðnar af honum. Á meðan hafði KR sett niður tíu stig og var því búið að byggja sér upp þægilega forystu.

Þá forystu náðu bláir gestirnir ekki að vinna niður og var staðan 44-32 þegar flautað var til hálfleiks. Undir lok fyrri hálfleiks gekk ekkert upp hjá ÍR og þeir virtust ekki líklegir til þess að ná að keyra í endurkomu í þeim seinni.

Sú varð líka raunin. Stuttu eftir að þriðji leikhluti fór í gang fékk Gerald Robinson frían þrist, góður metri í næsta mann á alla kanta, en skotið snerist upp úr körfunni. Þannig var leikur ÍR lengst af. Það gekk ekkert upp.

Di Nunno svaraði með að setja þrist og koma muninum í tuttugu stig. Þar var náðarhöggið komið.

ÍR-ingar mega eiga það að þeir héldu áfram og reyndu að svara en það gekk bara ekki. Þeir náðu aldrei að koma leiknum aftur undir tíu stigin og undir lokinn snerist þetta bara um að spila út mínúturnar. Þegar upp var staðið munaði tuttugu og átta stigum á liðunum, 98-70.

vísir/daníel
Af hverju vann KR?

Reynslan spilaði stóran þátt þar í og þá var það klárlega ekki að vinna með ÍR að hafa spila fleiri leiki og það erfiða, spennandi leiki. KR var sterkara á öllum sviðum í dag. Varnarleikur ÍR náði ekki að halda aftur af þeim og Di Nunno setti tóninn strax í upphafi með þristunum þremur.

ÍR gefst aldrei upp og kemur alltaf til baka, en KR-ingar gerðu vel í að hleypa þeim ekki til baka. KR stóð vörnina vel og refsaði grimmt þegar ÍR-ingar gerðu mistök. Þetta lið býr yfir gífurlegri reynslu, hefur verið í þessari stöðu margoft áður á meðan ÍR er með ungt og óreynt lið. Það spilaðir klárlega hlutverk í þessum leik.

Hverjir stóðu upp úr?

Michele di Nunno hitti svakalega vel í kvöld. Hann var með 27 stig og 12 þeirra komu beint úr þristum mjög snemma leiks. Hann getur hitt úr ótrúlegustu skotum og þau koma oft á bestu augnablikunum. Julian Boyd var einnig mjög öflugur með 21 stig og þá átti Emil Barja góða innkomu af bekknum.

Í liði ÍR var Sigurður Gunnar Þorsteinsson öflugur og sótti vel á körfuna. Hákon Örn Hjálmarsson setti 18 stig og Matthías Orri Sigurðarson leiddi ÍR-inga undir lokin.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur ÍR gekk mjög illa í kvöld. 98 stig á sig er klárlega ekki eitthvað sem Borche Ilievski er ánægður með. Að sama skapi gekk sóknarleikurinn illa. Þeir voru að tapa boltanum, koma með klaufalegar sendingar og hittu illa úr opnum færum. Þetta var ekki þeirra dagur, hvort sem það er þreyta, pressa eða hvað.

En ungt lið ÍR getur klárlega tekið þennan leik í reynslubankann og þeir geta gengið stoltir frá þessari úrslitakeppni þar sem þeir slógu út bæði deildarmeistarana og liðið sem lenti í öðru sæti deildarinnar.

Hvað gerist næst?

Domino‘s deildin hefur kvatt þetta árið. KR-ingar fagna um allan Vesturbæ í kvöld og svo fara þeir, sem og leikmenn ÍR, í kærkomið sumarfrí.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.