Körfubolti

Ingi mætti í settið hjá Domino's Körfuboltakvöldi: „Erfiðasta tímabilið á ferlinum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ingi mætti í settið eftir oddaleikinn í DHL-höllinni í gær.
Ingi mætti í settið eftir oddaleikinn í DHL-höllinni í gær. mynd/stöð 2 sport
Ingi Þór Steinþórsson gerði KR að Íslandsmeisturum í annað sinn í gær. KR vann þá öruggan sigur á ÍR, 98-70, í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Ingi gerði KR einnig að meisturum árið 2000, þá á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari meistaraflokks.

Ingi tók aftur við KR síðasta sumar af Finni Frey Stefánssyni sem gerði liðið fimm sinnum að Íslandsmeisturum. Þrátt fyrir að taka við meistaraliði gekk á ýmsu hjá KR í vetur eins og Ingi ræddi um er hann mætti í settið hjá Domino's Körfuboltakvöldi eftir leikinn í DHL-höllinni í gær.

„Það hefur margt gerst í vetur. Verkefnið var koma liðinu saman og við náðum engri mynd á það fyrr en seint í vetur. Það voru breytingar á liðinu nánast í hverri einustu viku og óvissan var mikil. Það er erfitt að starfa í þannig umhverfi,“ sagði Ingi.

„En svo gerðust góðir hlutir. Við nýttum landsleikjahléið vel og komum frábærlega út úr því. Við gerðum breytingu um áramótin sem tók tíma að virka.“

Margir leikmenn KR lögðu lóð á vogarskálarnar á leiðinni að Íslandsmeistaratitlinum.

„Þetta er liðsíþrótt. Þegar eitt lokast opnast annað. Menn voru hungraðir, sama hvort við vorum að svelta þá á bekknum eða frammistaða þeirra svelti þá. Þetta eru keppnismenn. Við treystum hvor öðrum og það ríkir traust á milli manna. Mitt hlutverk er að láta alla fara sömu leið. Þegar allir fara sömu leiðina gerist eitthvað gott,“ sagði Ingi sem viðurkennir að tímabilið í ár hafi tekið á.

„Ég get vottað fyrir að þetta er erfiðasta tímabil mitt sem þjálfari og hef sagt það nokkrum sinnum í vetur. Áskorunin var krefjandi,“ sagði þjálfari Íslandsmeistaranna.

Viðtalið við Inga má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

Klippa: Viðtal við Inga Þór

Tengdar fréttir

Boyd valinn bestur

Bandaríkjamaðurinn knái hjá KR var valinn besti leikmaður úrslitaeinvígisins.

Jón: Langar að spila meira

Jón Arnór Stefánsson langar að spila körfubolta áfram eftir að hafa hjálpað KR til sjötta Íslandsmeistaratitilsins í röð með sigri á ÍR í oddaleik í DHL höllinni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×