Körfubolti

Boyd: „Hópur af strákum sem kann að vinna“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Julian Boyd var bestur í úrslitakeppninni
Julian Boyd var bestur í úrslitakeppninni vísir/daníel

Julian Boyd var valinn besti maður úrslitakeppninnar en hann var lykilmaður í liði KR sem tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn sjötta árið í röð.

„Við erum með lið af strákum sem kunna að vinna,“ sagði Boyd aðspurður hvað hafi skilað þessu. KR vann 98-70 sigur á ÍR í oddaleik í DHL höllinni í vesturbæ Reykjavíkur í kvöld.

„Þessir strákar elska hvorn annan og gefast aldrei upp. Við lentum undir í þessari seríu, jöfnuðum, lentum aftur undir en við misstum aldrei trúna.“

„Við trúum á sjálfa okkur, erum sigurvegarar og kunnum að halda ró okkar.“

Boyd endaði þennan leik með 21 stig en hann er með 22 stig að meðaltali í leik í vetur. Hann var valinn bestur í úrslitakeppninni og er búinn að vera frábær fyrir KR.

„Þetta er frábært, en þetta er ekki bara ég. Mike, Kristófer, Jón, Finnur í leik fjögur, það eiga allir í liðinu smá hlut í þessum verðlaunum.“

Boyd var að spila sitt fyrsta tímabil á Íslandi og kunni hann vel við sig.

„Við byrjuðum ekki eins vel og við vildum en markmiðið var að komast í úrslitin og lyfta þessum bikar. Nú þegar við höfum náð því er hægt að segja að tímabilið hafi verið árangursríkt.“

Hann gat ekki sagt hvað framtíðin bæri í skauti sér, en hvert yrði svarið ef KR leitaðist eftir kröftum Bandaríkjamannsins næsta vetur?

„Ég myndi svo sannarlega taka því. Ég elska að vera hérna, þetta er frábær staður og frábær hópur fólks. Ég myndi svo sannarlega elska að vera hérna áfram,“ sagði Julian Boyd. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.