Körfubolti

Borche: „Þessir ungu strákar munu skila titli í Breiðholtið“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Borche hefur gert frábæra hluti með lið ÍR
Borche hefur gert frábæra hluti með lið ÍR vísir/daníel
Borche Ilievski fór með lið sem rétt svo komst í úrslitakeppnina í Domino‘s deild karla alla leið í oddaleik í úrslitunum. Þar settu nýkrýndir sexfaldir Íslandsmeistarar KR hins vegar óyfirstíganlega hindrun.

„Við vitum núna hversu mikinn styrk þarf í svona leik. Án lykilleikmanns er þetta mjög erfitt, við getum barist en þegar upp er staðið þá eru þeir með 12 manns í róteringunni og spiluðu á að minnsta kosti tíu í kvöld. Ég er með fimm, sex leikmenn sem geta spilað svona leiki,“ sagði Borche Ilievski í leikslok í kvöld.

ÍR tapaði leiknum 98-70 og eftir að hafa lent 14-5 undir snemma leiks var í raun aldrei spurning hvernig myndi fara.

„Ég er mjög stoltur af strákunum mínum. Þeir gáfust ekki upp, þeir reyndu og gáfu sitt besta.“

Þrátt fyrir þessi orð Borche vantaði svolítið upp á baráttuna sem ÍR-ingar hafa sýnt í vetur í kvöld og þeir virtust einfaldlega sprungnir á blöðrunni. Borche segir það liggja í því að hann er ekki með eins breiðan hóp og KR.

„Ég er með mjög unga stráka sem eru mjög efnilegir og eiga framtíðina fyrir sér, en eins og er þá eru þeir ekki tilbúnir í þessa leiki. En við þurfum að fjárfesta í þessum strákum. Það er gott að hafa þá á æfingum með eldri strákunum og ég trúi því að í framtíðinni munu þeir koma með titil í Breiðholtið.“

En hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir Borche Ilievski?

„Ég þarf að setjast niður með stjórninni og sjá hver markmiðin eru.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×