Umfjöllun og viðtöl: Valur - Keflavík 87-64 | Valur Íslandsmeistari í fyrsta sinn

Axel Örn Sæmundsson skrifar
Valur lyftir bikarnum.
Valur lyftir bikarnum. vísir/daníel
Hér í kvöld mættust lið Vals og Keflavíkur í þriðja leik liðanna í úrslitaviðureign Dominos deildar kvenna. Valskonur leiddu 2-0 fyrir leik og voru því Keflavíkurkonur með bakið upp við vegginn hér í Origo-höllinni á Hlíðarenda.

 

Leikurinn fór gríðarlega skemmtilega af stað og skipustu liðin á að skora. Fyrstu mínúturnar var skorað mjög mikið en svo fór aðeins að hægjast á því. Keflavík byrjaði betur og voru með fín tök á þessu fyrstu mínúturnar. Valur tók þá 11-0 áhlaup sem kom þeim yfir.  

 

Valur gaf svo bara í og jók forystu sína meira hægt og rólega í öðrum leikhluta og náðu mest 20 stiga forystu þegar flautað var til hálfleiks. Keflavík höfðu fengið fullt af góðum skotum en voru að skjóta alveg skeflilega.

Í hálfleik var Keflavík með 2/16 í þriggja stiga og því með 13% nýtingu á móti 35% 3ja stiga nýtingu hjá Val. Valskonur voru líka yfir í frákastabaráttunni og því  var á brattann að sækja fyrir Keflavík í hálfleik.

 

Keflavík komu vel út úr hálfleiknum og voru mikið öflugri til þess að byrja með í þriðja leikhluta. Keflavík voru að spila hörku vörn og voru að setja skotin sín niður og náðu þessu niður í 8 stiga mun. Valskonur gáfu þá rækilega í og náðu þessu aftur upp í 17 stiga mun þegar leikhlutanum lauk.

 

Það gerðist lítið bitastætt í fjórða og síðasta leikhlutanum og náðu Valskonur að sigla þessu og tryggja sér þar með Íslandsmeistaratitil árið 2019.

Baráttan í leiknum mikil.vísir/daníel
Af hverju vann Valur?

Frábær fyrri hálfleikur. Leiða hratt í leiknum og halda forystunni vel. Spila góða vörn og voru að setja skotin sín niður. Gæðin í liðinu gríðarlega mikil og stelpurnar tilbúnar að berjast fyrir hvor aðra og sigra þennan leik og þar af leiðandi verða Íslandsmeistarar.

 

Hverjar stóðu uppúr?

Helena og Heather með sitthvor 25 stigin hér í kvöld. Stjórnuðu ferðinni algjörlega og voru geggjaðar. Frábærir leikmenn.

 

Hvað gekk illa?

Þriggja stiga nýting Keflavíkur alveg hreint út sagt hræðileg hér í kvöld. Tapa líka í frákastabaráttu.

 

Hvað gerist næst?

Valskonur fara væntanlega að skemmta sér í kvöld en ég ætla ekki að fullyrða neitt um það! Keflavík tekur silfrið og hefur þá stórt markmið að stefna að á næsta ári og það er að taka næsta skref og vinna titilinn.

Bikarinn fer á loft.vísir/daníel
Helena: Sýndum í dag að við erum langbesta liðið á landinu

„Líður ógeðslega vel, geggjað hvernig við komum tilbúnar í leikinn. Sýndum í dag að við erum langbesta liðið á landinu í dag,“ sagði Helena Sverrisdóttir leikmaður Vals eftir sigur gegn Keflavík í kvöld.

 

Valsliðið lék á alls oddi hér í kvöld og voru frábærar bæði varnar sem og sóknarlega. Hvað skóp sigurinn hjá þeim hér í kvöld.

 

„Spiluðum geggjaða vörn í kvöld. Vorum fljótar að svara áhlaupinu þeirra og náðum þessu meira segja upp í stærri mun.“

 

Valsliðið sigraði alla titla sem það gat unnið í vetur og spilaði frábæran körfubolta. Liðið var augljóslega besta lið landsins árið 2019 og er vel að þessu afreki komið.

 

„Já 3 titlar þeir segja sitt.Við erum búnar að tala um það í vetur að okkur langar til að vera besta liðið sem hefur spilað á Íslandi og að sigra Keflavík með 20+ í úrslitaleik er geggjað“

 

Hvað er í vændum hjá Val á næstu árum. Valsliðið gæti tekið núna tímabil þar sem það er besta lið landsins en það tekur tíma og þarf að fylgja því vel eftir.

 

„Það eru frábærir hlutir að gerast á Hlíðarenda og næstu ár eru gríðarlega spennandi hjá félaginu.“

Darri aftastur til vinstri.vísir/daníel
Darri: Þetta lið ætti alvarlega að skoða það að fara í Evrópukeppni

„Ég bara veit ekki hvernig mér líður, þetta er algört spennufall. Maður er ekki búinn að átta sig á þessu ennþá en tilfinningin er rosalega góð,“ sagði Darri Freyr Atlason þjálfari Vals eftir sigur gegn Keflavík hér í kvöld.

 

Valsliðið spilar frábærlega og leikmenn sem koma af bekknum eru tilbúnir til þess að fórna sér fyrir málstaðinn. Hvað er það sem býr til þessa liðsheild hjá Val?

 

„Fyrst og fremst eru þetta stórkostlegir leikmenn en síðan er þetta fórnfýsi þeirra sem eru ekki númer eitt. Það er það sem býr til meistaralið. Það á sama við um öll meistaralið að það eru leikmenn sem eru að spila minna hlutverk en þeir geta verið að gera.“



Valsliðið er búið að vera langbesta lið landsins á þessu ári og vinna allt sem hægt er að vinna. Darri Freyr var alveg viss um að markmið Vals á næstu árum ættu að vera stórleit.

 

„Þetta lið ætti alvarlega að skoða það að fara í Evrópukeppni“

Jón var stoltur af sínu liði.vísir/daníel
Jón Guðmundsson: Hittum vel í síðasta leik og skjótum 19% í dag sem klárlega hefur lykiláhrif

„Svekkjandi að tapa 3-0 en við töpuðum bara á móti feikigóðu liði“ sagði Jón Guðmundsson þjálfari Keflavíkur eftir tap gegn Val í kvöld.

 

Keflavík byrjaði leikinn ágætlega en það fjaraði hratt út og tóku Valskonur öll tök á leiknum.

 

„Þær ná að ýta okkur úr öllu sem við erum að gera eftir svona 5 mínútur. Þær voru rosalega aggresívar varnarlega og það var það sem skóp þetta hjá þeim.“

 

Jón var viss um að ef liðið hefði ekki drifið sig of mikið í þriðja leikhluta þá hefði þetta getað farið öðruvísi.

 

„Náðum að minnka þetta í 9 stig en þá fórum við að flýta okkur of mikið.“

 

Þriggja stiga nýting Vals hér í kvöld var hrikalega slæm. Þær fengu mikið af opnum skotum sem þær náðu ekki að nýta sér.

 

„Hittum vel í síðasta leik og skjótum 19% í dag sem klárlega hefur lykiláhrif“

 

Jón Guðmundsson var ánægður með tímabilið í heild sinni og hann náði að búa til gott lið sem stóðu sig gríðarlega vel í vetur.

 

„Ég er hrikalega stoltur og montinn af þessu liði. Við vorum eina liðið sem var með einn útlending í allan vetur og vorum á toppnum í allan vetur. Ég er mjög stoltur af þessu liði.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira