Erlent

Fimm gæslu­varð­halds­fangar kjörnir á spænska þingið

Atli Ísleifsson skrifar
Oriol Junqueras er fyrrverandi varaforseti héraðsstjórnar Katalóníu. Hann var kjörinn á spænska þingið í gær.
Oriol Junqueras er fyrrverandi varaforseti héraðsstjórnar Katalóníu. Hann var kjörinn á spænska þingið í gær. epa
Fimm katalónskir aðskilnaðarsinnar sem sitja nú í gæsluvarðhaldi voru kjörnir á spænska þingið í kosningunum í gær.

Sósíalistaflokkur Pedro Sanchez forsætisráðherra hlaut 29 prósent atkvæða og 123 þingsæti og verður stærsti flokkur á þinginu. Talið er að erfiðlega gæti reynst að mynda stjórn.

Í fyrsta sinn frá lokum herforingjastjórnarinnar á áttunda áratug síðustu aldar tekur hægriöfgaflokkur sæti á þinginu, en flokkurinn Vox hreppti 24 þingsæti. Vox berst gegn fjölmenningu, innflytendum og það sem þeir kalla „öfgafeminisma“.

Fimm í varðhaldi

Oriol Junqueras, fyrrverandi varaforseti héraðsstjórnar Katalóníu, var einn þeirra sem kjörinn var á spænska þingið í kosningunum í gær, en hann leiddi aðskilnaðarflokkinn ERC. Junqueras var í hópi þeirra sem fór fyrir tilraun Katalóna til að lýsa yfir sjálfstæði héraðsins árið 2017. Hann er nú í gæsluvarðhaldi.

Baráttumaðurinn Jordi Sanchez og Jordi Turull, talsmaður katalónsku héraðstjórnarinnar árið 2017, voru einnig kjörnir á þing. Þeir voru báðir á lista Saman fyrir Katalóníu, flokks Carles Puigdemont, fyrrverandi forseta Katalóníu, sem flúði land og forðaðist þannig handtöku.

Josep Rull, sem einnig átti sæti á katalónska héraðsþinginu árið 2017, var einnig kjörinn á þing, auk þess að Raul Romeva, sem var yfir utanríkismálum Katalíníu árið 2017, tekur sæti í efri deild spænska þingsins.

Allir eru aðskilnaðarsinnarnir fimm í gæsluvarðhaldi, en mál þeirra er nú til meðferðar hjá Hæstarétti Spánar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×