Innlent

Ástandið grafalvarlegt á Akranesi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Elsa Lára Arnardóttir, stjórnarformaður Höfða.
Elsa Lára Arnardóttir, stjórnarformaður Höfða.

Fimm manns eru fastir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands því ekki er hægt að útskrifa þá þar sem ekki er pláss á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi. Þar eru hátt í fjörutíu manns á biðlista og segir stjórnarformaður Höfða ástandið vera grafalvarlegt.

Heilbrigðisráðherra synjaði beiðni Akranesbæjar um fjölgun hjúkrunarrýma á dvalarheimilinu Höfða á Akranesi fyrr á þessu ári og var mikil óánægja innan bæjarstjórnar með þá ákvörðun.

Farið var í að kortleggja þörfina eftir hjúkrunarrýmum enn betur og segir Elsa Lára Arnarsdóttir, stjórnarformaður Höfða, að staðan sé enn verri að talið hafði verið. Þrjátíu og sex manns eru á biðlista eftir hjúkrunar- og dvalarrýmum. 

„Það hefur orðið mikil fjölgun núna í vetur. Staðan er sú að af þessum 36 manns eru fjórir til fimm fastir inn á legudeildum heilbrigðisstofnunarinnar. Þeir ná ekki að útskrifast þaðan því þeir fá ekki varanlega dvöl á Höfða því það er bara allt fullt“

Þetta sé ömurleg staða fyrir þá einstaklinga sem eru fastir á spítalanum. „Þeir ná ekki að koma inn á Höfða og taka þátt í því iðjustarfi sem þar er og eru þar með fastir upp á spítala þar sem er annars konar þjónusta en verið er að veita á hjúkrunar og dvalarheimilum. Það væri til allra bóta fyrir þá og þá sem þurfa á þjónustu heilbrigðisstofnunarinnar að halda að þessir einstaklingar komist inn á Höfða“

Elsa Lára segir að áfram sé verið að reyna vekja athygli stjórnvalda á málinu. Stjórnarmenn Höfða eigi fund með ráðherra í maí.

„Staðan er grafalvarleg. Við erum með fjögur biðhjúkrunarrými á höfða sem eiga að renna út 30. september næstkomandi. Við höfum fengið synjun á því að þau verði gerð varanleg og erum í raun enn að pressa á það að þau verði gerð varanleg hjúkrunarrými vegna þeirra stöðu sem uppi er,“ segir Elsa Lára.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.