Skoðun

„Rót vandans“

Páll Magnús Pálsson skrifar
Síðastliðinn miðvikudag birtist í Fréttablaðinu áhugaverð grein eftir doktor í lögfræði og kennara minn í réttarheimspeki við Háskólann í Reykjavík, Hauk Loga Karlsson. Í greininni ræddi doktorinn mikilvægi þess að viðbrögð við dómi MDE í Landsréttarmálinu miðuðu að því að styrkja traust almennings á dómskerfinu, en það hafi beðið mikinn hnekki vegna aðgerða fyrrverandi dómsmálaráðherra. Hann telur ljóst að rétt viðbrögð við dómi MDE séu hvorki meira né minna en að leggja niður dómstólinn og hefja skipunarferli aftur við nýjan dómstól undir öðru nafni.

Hefðbundin íslensk frænd- og vinahygli

Haukur Logi telur að þá ákvörðun dómsmálaráðherra að víkja frá mati hæfnisnefndar megi rekja til þess sem hann kallar „hefðbundna íslenska frænd- og vinahygli“. Þessi orð lýsa ekki mikilli virðingu fyrir þeim fjórum dómurum sem höfðu ekki hlotið náð fyrir augum hæfnisnefndarinnar, en ráðherra skipaði. Sá dómari sem hefur mátt þola hvað mest af slíkri ómálefnalegri gagnrýni er Arnfríður Einarsdóttir. Margir hafa fullyrt að hún hafi verið skipuð dómari við Landsrétt vegna þess að hún er gift samstarfsmanni fyrrverandi dómsmálaráðherra, en ekki vegna þess að hún er einn reynslumesti dómari landsins með yfir 30 ára starfsreynslu við dómstólana.

 

Rót vandans

„Þar sem rót vandans liggur í upphaflegu skipuninni, sem allir eru fyrir löngu hættir að mæla bót, liggur beint við hvað þarf að gera til að endurheimta það traust sem dómstóllinn þarf að njóta“ segir Haukur Logi. En liggur rót vandans í upphaflegu skipuninni? Svarið við spurningunni er að mínu mati neitandi. Rótin liggur auðvitað í því ótæka fyrirkomulagi sem við búum við varðandi mat á hæfni þeirra sem sækja um embætti dómara, og væginu sem búið er að veita því mati. Í umræðu um skipun dómara á Íslandi er yfirleitt gengið út frá því að með því að skipa annan en þann sem hæfnisnefnd leggur til sé í raun verið að víkja frá hæfari umsækjanda; að matið sé einhvers konar æðri sannleikur. Þeir sem lesa matið og kynna sér þá aðferðafræði sem þar er beitt vita að því fer fjarri. Mat á umsækjendum um dómaraembætti við Landsrétt var reyndar svoleiðis að þegar „matsblað“ hæfnisnefndar birtist opinberlega þurfti maður hreinlega að snúa sér til veggjar. Búin voru til matshólf með hinum ýmsu starfsþáttum og fengu umsækjendur einkunn í hverjum reit. Þetta var svo allt plúsað saman og útkoman átti að segja til um hæfni umsækjandans. Það er engin leið fyrir t.d. Arnfríði Einarsdóttur að skora stig í reit fyrir lögmannsreynslu sem gildir 20 prósent af matinu, eða reit fyrir fræðistörf sem gildir 10 prósent af matinu, því hún hefur starfað sem dómari allan sinn starfsferil! Hennar fræðistörf felast í að skrifa vandaða dóma um flókin álitaefni. Vegna þess hve annasamt slíkt starf er hefur hún engan tíma til að sinna öðru samhliða. Af þeim sökum verður hún strax af 30 prósentum í mati nefndarinnar. Felur svona fyrirkomulag í sér mat á hæfni umsækjenda?

Mikilvægt er að ráðherra hafi ekki alræðisvald yfir skipun dómara og geti skipað þá sem henni sýnist, af þeim sökum er óháð stjórnsýslunefnd mikilvægur hluti í ferlinu. En til að gefa mati nefndarinnar eins mikið vægi og raun ber vitni verður hún að lágmarki að gera tilraun til að meta raunverulega hæfni umsækjenda. Það er ekki gert með ofangreindum hætti.

Deilt er um hvort ráðherra hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga þegar hún gerði tillögu, sem vék frá nefndarálitinu að því er varðaði fjóra dómara, til Alþingis. Það lá fyrir að óbreyttur listi nefndarinnar hefði aldrei komist gegnum þingið. Það var að meginstefnu til vegna þess að á honum voru tvöfalt fleiri karlar en konur og var það talið ótækt af öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi. Með nokkurri einföldun má því segja að verkefni dómsmálaráðherra hafi verið að semja nógu góðan rökstuðning fyrir breytingu á mati nefndarinnar, til að unnt væri að koma Landsrétti af stað á tilsettum tíma. Til þess hafði hún tvær vikur. Henni mistókst þessi rökstuðningur að mati Hæstaréttar, en þó ekki með þeim afleiðingum að dómararnir fjórir væru ólöglega skipaðir.

 

Óréttlát málsmeðferð?

Meirihluti dómenda við MDE komst að þeirri niðurstöðu að vegna þessara annmarka á skipuninni njóti þeir sem hljóta dóm fyrir Landsrétti ekki réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli í skilningi 6. gr. Mannréttindasáttmálans. Ég held að flestir séu sammála um að þetta sé hreinasta fásinna. Í stað þess að álykta á þennan hátt hefði dómstóllinn að mínum dómi átt að krefjast þess af okkur Íslendingum að huga að skipunarferlinu. Hann ákveður í staðinn að setja millidómstigið í uppnám. Millidómstigið sem fjöldi stofnana á Íslandi og þ.á.m. Hæstiréttur hafði komist að niðurstöðu um að væri löglega skipað.

Frekar en að ráðast í þær ofsafengnu aðgerðir sem Haukur Logi leggur til skulum við halda rónni og einbeita okkur að raunverulegri rót vandans. Fullnusta dóms MDE af okkar hálfu ætti að felast í því að laga þessar gölluðu aðferðir við mat á umsækjendum og skipun dómara á Íslandi. Tillögur þess efnis má lesa í væntanlegri ritgerð minni sem ber heitið „Skipun dómara á Íslandi: Ófremdarástand“.

Höfundur er laganemi við Háskólann í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

TILMÆLI!

Sara E. Þórðardóttir Oskarsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.