Tíska og hönnun

Vveraa er ekki Vera nema síður sé

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Íris Björk Jónsdóttir hefur selt skart undir merkjum Vera Design í sjö ár en línuna byggir hún á sex áratuga gamalli hönnun Guðbjarts Þorleifssonar.
Íris Björk Jónsdóttir hefur selt skart undir merkjum Vera Design í sjö ár en línuna byggir hún á sex áratuga gamalli hönnun Guðbjarts Þorleifssonar.
Skartgripir Maríu Ericsdóttur Panduro, sem unnir eru úr sanngirnisvottuðu gulli, verða meðal annars kynntir á HönnunarMars undir vörumerkinu VVERAA Reykjavík.

Þar þykir hins vegar skartgripahönnuðinum Írisi Björk Jónsdóttur fulllangt gengið og vegna líkinda við skartgripahönnun hennar sem hún hefur selt um árabil undir merkinu Vera Design. „Mér finnst þetta bara í besta falli óheppilegt og það er mjög auðvelt að ruglast á þessu,“ segir Íris Björk í samtali við Fréttablaðið.

Hún bætir við að líkindin bjóði óhjákvæmilega upp á að Vveraa verði ruglað saman við Vera, „sem ég hef kostað til miklum fjármunum og tíma í að byggja upp“. Íris Björk vísar að öðru leyti á lögmann sinn, Steinberg Finnbogason, sem telur að um hugverkastuld sé að ræða.

„Í hönnunargeiranum þykir hugverkastuldur ekki góð latína og þessi augljósa eftirherma er að okkar viti kolólögleg,“ segir Steinbergur. „Þetta er líka mikil óvirðing við þá löngu sögu sem Vera Design hefur að baki, en fyrirtækið var upphaflega grundvallað á skartgripalínu frá Guðbjarti Þorleifssyni gullsmið sem starfaði að iðn sinni á Íslandi í meira en 60 ár.“

Tónlistarmaðurinn Högni Egilsson hefur meðal annars skartað munum frá Vera Design. Hér sést hann í auglýsingu fyrir Vveraa Reykjavík.skjáskot

Vill rauða spjaldið

„Umbjóðandi minn mun að sjálfsögðu leita réttar síns með öllum tiltækum ráðum. Sjálfum þætti mér það góð byrjun að svona smekkleysa fengi rauða spjaldið frá Hönnunarmiðstöð Íslands og yrði einfaldlega úthýst á HönnunarMars,“ segir lögmaðurinn jafnframt.

„Ef annað dugar ekki til munum við síðan freista þess að fá dómstóla til þess að ógilda þennan nafnastuld.“

Þá talar Steinbergur um „einkennilega stafsetningu og afbökun“ á nafninu Vera og segist telja ljóst að verið sé að „teika langa og farsæla sögu að baki Vera Design.

Þetta er sérstaklega grófur stuldur á nafni þar sem félögin eru bæði í skartgripahönnun og þessi nýi aðili er augljóslega á ýmsum öðrum sviðum að elta skjólstæðing minn í alls kyns útliti. Þess vegna munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að verja orðsporið og viðskiptavildina.“

Í athugasemd frá Vveraa Reykjavík um líkindi vörumerkjanna kemur fram að leit á vefnum skili fjórtán niðurstöðum með vörumerkinu Vera. Það geti því varla talist „svo einstakt“ og að skýr skilaboð hafi fengist frá Einkamálastofu um að engin vandkvæði ættu að vera á þessari notkun á nafninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×