Innlent

Krefjast tíðari moksturs á Dettifossvegi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Svona var staðan í febrúar á Dettifossvegi.
Svona var staðan í febrúar á Dettifossvegi. Mynd/Hörður Jónasson - Fjallasýn hf.
Stjórn Markaðstofu Norðurland segir að þjónusta Vegagerðarinnar við Dettifossveg að vetrarlagi sé óásættanleg. Ekki sé boðlegt að vegurinn að einni helsti náttúruperlu landsins sé aðeins mokaður tvisvar sinnum á ári að vetrarlagi.Í ályktun stjórnarinnar vegna málsins segir að rekja megi fáar ferðir mokstursmanna um veginn til G-reglu Vegagerðarinnar, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið bent á það að mikilvægt sé að leiðin að fossinum sé greiðfær á veturna.„Lítið hefur hins vegar breyst og í dag er staðan sú að vegurinn er ófær öðrum en þeim sem keyra um á breyttum jeppum. Dettifoss er eitt helsta aðdráttaraflið í ferðaþjónustu á Norðurlandi, enda fossinn sá aflmesti í Evrópu,“ segir í ályktun stjórnarinnar.Þetta sé bagalegt í ljósu þess að miklu hafi verið til kostað til þess að leggja malbikaðan veg að fossinum sem og bílastæði. Eins og staðan sé í dag sé vegurinn aðeins fær ferðaþjónustufyrirtækjum sem búi yfir breyttum jeppum, en sá rekstur sé dýr. Einkennilegt sé að aðeins jeppar sem séu sérstaklega hannaðir fyrir jökla- og hálendisferðir sé krafist til þess að komast að Dettifossi.„Stjórn Markaðsstofu Norðurlands skorar á stjórnvöld að tryggja fjármagn til þjónustu allt árið um kring við Dettifossveg. Sú þjónusta verður enn mikilvægari þegar búið verður að klára veginn frá Dettifossi og að Ásbyrgi. Ekki verður við það unað að sá vegur verði ekki mokaður yfir vetrartímann, enda sú framkvæmd til þess gerð að tryggja og efla samgöngur um Norðurland allan ársins hring,“ segir í ályktun stjórnarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.