Innlent

Niðurgreiðslur til almenningssamgangna auknar með samþættingu

Heimir Már Pétursson skrifar

Niðurgreiðsla ríkisins á almenningssamgöngum mun aukast með samþættingu þeirra á næstu árum í viðleitni til að auka þær og draga úr loftmengun. Samgönguráðherra segir nauðsynlegt að byggja upp skiptistöðvar víðs vegar um landið.

Samgönguráðherra kynnti grunn að heildarstefnu stjórnvalda um almenningssamgöngur í dag sem finna má á samráðsgáttinni. Starfshópur leggur til að almenningssamgöngur með flugi, ferjum og almenningsvögnum myndi eina sterka heild. Boðið verði upp á eitt leiðakerfi fyrir allt landið til að auka hlutdeild almenningssamgangna í ferðum milli byggða og stuðla þannig að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um landið.

„Þannig að þú getir á einum stað getir keypt þér miða hvort sem þú ert að fara í flug eða í strætó til að komast á milli staða innan Íslands. Eða jafnvel ferjur,” segir Sigurður Ingi.

Töluverður fjöldi fólks ferðast með almenningsfarartækjum ýmiss konar í dag en áætlanir þeirra eru ekki endilega samstilltar. Þegar hafi verið ákveðið að auka niðurgreiðslur í flugi og þær verði auknar á öðrum sviðum einnig.

Til að byggja upp samþætt kerfi þyrfti að byggja upp skiptistöðvar á helstu stöðum og öðrum minni innan tiltekinna landsvæða, jafnvel í samstarfi við einkaaðila.

„Þannig að þar eru bæði sóknarfæri fyrir landshlutasamtökin eða aðra þá sem hugsanlega myndu reka þetta kerfi. Til að takast á við að byggja upp og það verða meiri fjármunir í þessu en við höfum séð á undanförnum árum. Borgarlínan, rímar hún vel við þessa hugmyndafræði? Hún rímar algerlega við þessa hugmyndafræði,” segir samgönguráðherra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.