Sport

Júlían fær "súrsætt“ brons

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Júlían setur seinna heimsmet sitt í nóvember
Júlían setur seinna heimsmet sitt í nóvember mynd/kraft.is
Júlían J. K. Jóhannsson mun að öllum líkindum fá bronsverðlaun frá heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem fram fór í nóvember eftir að mótherji hans féll á lyfjaprófi.

Morgunblaðið greindi frá þessu í gær en Júlían lenti upphaflega í fjórða sæti á mótinu. Júlían tvíbætti heimsmetið í réttstöðulyftu á mótinu, lyfti samtals 1115 kílóum og var 20 kg frá því að lenda í þriðja sæti.

Hinn úkraínski Volodymyr Svistunov hafnaði í þriðja sæti en hann féll hins vegar á lyfjaprófi og því ætti Júlían að færast upp í þriðja sætið.

„Þetta er súrsætt. Auðvitað er súrt að missa af því að standa á pallinum, en sætt að þeir sem svindla séu teknir,“ sagði Júlían við Morgunblaðið.

Alþjóðakraftlyftingasambandið hefur ekki greint frá þessu né breytt úrslitunum á heimasíðu sinni en gagnabankinn sem heldur utan um úrslitin er búinn að setja Júlían í þriðja sætið.

Júlían sagði íslenska sambandið komið í málið og sé farið að grennslast fyrir um hvernig verðlaununum verður komið á hann.

Júlían varð annar í kjörinu á Íþróttamanni ársins fyrir árið sem var að líða. Hann fékk 416 stig í kjörinu en Sara Björk Gunnarsdóttir knattspyrnukona 464 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×