Körfubolti

Sagan á bak við fánann og Michael Jordan á verðlaunapalli ÓL í Barcelona 1992

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan með fánann yfir öxlinni.
Michael Jordan með fánann yfir öxlinni. Samsett/Myndir frá Getty
Í gær voru liðin 27 ár síðan að Michael Jordan og félagar í bandaríska draumaliðinu urðu Ólympíumeistarar eftir 32 stiga sigur á Króatíu í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Barcelona.

Kannski vakti það athygli einhverja sem skoðuðu myndir frá þessum atburði að Michael Jordan var með risastóran bandarískan fána yfir öxlinni í verðlaunaafhendingunni.

Það er nefnilega ástæða fyrir því að Jordan mætti með þennan fána og það var ekki þörf hans fyrir að sýna opinberlega ást sína á Bandaríkjunum.





Samstarf Michael Jordan og íþróttavöruframleiðandans Nike átti eftir að breyta öllu hvað varðar slíka samning hjá íþróttafólki.

Jordan gerði Nike að gríðarlega vinsælu íþróttavörumerki og á meðan hann var að spila þá kom út nýr Jordan skór á hverju ári.

Vandamálið við samstarf Nike og Michael Jordan var að samningur bandaríska Ólympíuliðsins var við Reebok. Jordan átti meira að segja að hafa íhugað það að spila ekki með bandaríska liðinu vegna þess.

Jordan var hins vegar með og bandaríska draumaliðið lék sér að öllum andstæðingum sínum á Ólympíuleikunum í Barcelona sumarið 1992.

Michael Jordan og aðrir leikmenn þurftu að mæta í bandaríska Ólympíujakkanum á verðlaunaafhendinguna eftir að gullið var í höfn og á honum sást Reebok merkið vel.

Jordan fann hins vegar lausn á þessu vandamáli. Hann mætti með gríðarlega stóran bandarískan fána sem faldi umrædd Reebok merki.

Jordan var þarna nýbúinn að skrifa undir 25 milljón dollara samning við Nike og var ekki tilbúin að láta sjá sig í Reebok klæðnaði.

Charles Barkley, þá góður vinur Jordan, og Magic Johnson mættu einnig með bandaríska fánann yfir öxlinni á þessa verðlaunaafhendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×