Innlent

Grímseyingar fengu svefnfrið í nótt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Stærð skjálftanna hefur farið minnkandi.
Stærð skjálftanna hefur farið minnkandi. Mynd/Veðurstofa Íslands
Jarðskjálftahrinan við Grímsey virðist ekki hafa truflað nætursvefn eyjarskeggja í nótt. Dregið hefur úr jarðskjálfavirkni sé miðað við gærdaginn þegar mikil virkni var á svæðinu.

„Það er enn að skjálfa en það virðist vera smá rénun miðað við gærdaginn,“ segir Hildur María Friðriksdóttir náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. „Það lýsir sér í því að stærðin á skjálftunum er að minnka.“

Í gær mældust fjölmargir skjálftar yfir þrjú stig en stærsti skjálftinn var upp úr klukkan hálfsex í gærmorgun og var 5,2 að stærð. Skjálftavirknin hefur haldið áfram í morgun en á lista Veðurstofunnar yfir jarðskjálfta síðustu 48 klukkustundirnar má sjá að enginn skjálfti hefur náð yfir þrjú stig frá því í gærkvöldi.

„Það getur allt gerst en við erum að vonast til þess að þetta haldi áfram að róast,“ segir Hildur.

Stærsti skjálftinn reið yfir í gær, 5.2 stig.Vísir/Pjetur
Fjarlægðu muni úr hillum

„Það er búið að vera mjög rólegt,“ segir Jóhannes G. Henningsson, formaður hverfisráðs Grímseyja í samtali við Vísi.

Frá því á sunnudag hafa alls orðið um 1500 skjálftar á Tjörnesbrotabeltinu, flestir um og yfir eitt stig og segir Jóhannes að miðað við gærdaginn líti út fyrir að jarðskjálftahrinan sé að róast.

„Maður allavega svaf þetta af sér í nótt. Við fundum aðeins fyrir þessu í gærkvöldi en þetta hefur verið voða meinlaust,“ segir Jóhannes.

Viðlagatryggingar minntu Grímseyinga sem og aðra á skjálftasvæðum að mikilvægt væri að koma þungum munum úr hillum en þeir væru líklegastir til að valda skaða í stórum skjálftum. Jóhannes segir að Grímseyingar hafi farið að þessum ráðum í gær.

„Við vorum að taka hluti þar sem fólk sefur svo það væri ekki með eitthvað hangandi yfir sér. Þetta er það sem er verið að mælast til í öryggisskyni. Fólk fer að huga að þessu þegar svona læti er,“ segir Jóhannes sem vonar að það versta sé um garð gengið.

„Við förum að sjá hvort þetta sé ekki að fara verða búið en það eru allir mjög rólegir hérna og við vonum bara að þetta sé að ganga um garð.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.