Sport

Golden State íþróttamaður ársins hjá Sports Illustrated

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Golden State varð NBA meistari í vor
Golden State varð NBA meistari í vor vísir/getty
Bandarísku NBA meistararnir í Golden State Warriors eru íþróttamaður ársins að mati bandaríska íþróttatímaritsins Sports Illustrated.

Tímaritið velur íþróttamann ársins ár hvert og hefur gert síðan 1954. Þrisvar áður hefur lið verið valið sem lið ársins.

„Það eru fjölmargir sem við hefðum getað valið sem íþróttamann ársins án þess að neinn hefði getað mótmælt valinu,“ sagði ritstjórinn Chris Stone.

„En það var ómögulegt að horfa framhjá áhrifunum sem Warriors-liðið hefur haft á íþróttina sína og víðara samfélag síðasta hálfa áratuginn. Þeir eru sérstakt fyrirbæri sem við sjáum líklega ekki aftur um árabil, ef nokkurn tímann.“

Golden State varð meistari í þriðja skipti síðustu fjögur ár í vor eftir sigur á Cleveland Cavaliers í úrslitarimmu NBA deildarinnar.

„Þetta er þvílíkur heiður og sýnir mikilvægi „Styrkur í fjöldanum“ stefnunnar okkar,“ sagði framkvæmdarstjóri félagsins Bob Myers.

„Okkar árangur kemur vegna þess að hver einasti leikmaður, þjálfari eða starfsmaður leggur sitt af mörkunum og það að Sports Illustrated hafi heiðrað okkur er mjög sérstakt.“

Forsíða desemberblaðs Sports Illustrated, teiknuð af Mark Hammermeistermynd/si
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×