Enski boltinn

Sarri: Kante hefur ekki hæfileikana til að spila stöðu Jorginho

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
N'Golo Kante
N'Golo Kante vísir/getty
Maurizio Sarri segir N'Golo Kante ekki geta spilað stöðu Jorginho á miðjunni í liði Chelsea. Ítalinn var gagnrýndur fyrir taktík sína í tapi Chelsea gegn Tottenham um helgina.

Tottenham sundurspilaði Chelsea og vann 3-1 sigur á Wembley sem sá þá hvítklæddu senda bláu nágranna sína niður í fjórða sæti deildarinnar.

Eftir leikinn bentu nokkrir sparksérfræðingar á að Sarri ætti að láta Kante spila dýpra á miðjunni. Kante er af mörgum talinn einn besti varnarsinnaði miðjumaður heims og hann vann tvo Englandsmeistaratitla og einn heimsmeistaratitil síðustu þrjú tímabil.

Sarri segir Frakkann hins vegar ekki hafa hæfileika til þess að spila djúpur á miðjunni í hans skipulagi.

„Ég vil djúpan miðjumann sem er mjög teknískur. Að mínu mati er sá miðjumaður Jorginho eða Cesc Fabregas. Ég vil ekki hafa Kante í þeirri stöðu,“ sagði Sarri.

„Í síðasta leik vildi Kante bjarga leiknum eftir fyrsta korterið en hann gerði það ekki rétt. Hann tapaði boltanum og sótti of mikið. Þetta er einn af veikleikum Kante en kemur bara fram sem viðbrögð við því þegar illa gengur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×