Erlent

Nýnasistar handteknir vegna hryðjuverkaógnar í Chemnitz

Andri Eysteinsson skrifar
Frá óeirðum hægri-öfgamanna í Chemnitz um mánaðarmótin ágúst/september.
Frá óeirðum hægri-öfgamanna í Chemnitz um mánaðarmótin ágúst/september. Vísir/EPA
Þýsk yfirvöld hafa tilkynnt um handtökur sex manna sem grunaðir eru um að standa á bak við stofnun hryðjuverkasamtök öfga-hægrimanna í borginni Chemnitz í  Saxlandi í austurhluta Þýskalands. BBC greinir frá.

Miklar óeirðir í borginni í lok ágúst

Mennirnir eru taldir hafa skipulagt voðaverk gegn útlendingum í borginni en rúmur mánuður er síðan mikil mótmæli brutust út í borginni vegna innflytjendamála í Þýskalandi.

Mótmælin hófust í kjölfar þess að þýskur karlmaður var lést vegna hnífsstungu sem hann hlaut í hópáflogum, tveir menn voru grunaðir um verknaðinn en báðir voru kúrdískir flóttamenn.

Atvikið kveikti mikinn mótmælaneista og kann að hafa ýtt undir mennina sex sem lögregla hefur nú handtekið. Mennirnir eru allir þýskir ríkisborgarar og eru á aldrinum 20 til 30 ára gamlir.

Þeir eru eins og áður grunaðir um að hafa stofnað til hryðjuverkahóps en hann bar nafnið Revolution Chemnitz, sjöundi maðurinn sem tengdist hópnum var handtekinn í síðasta mánuði en hann ku hafa verið leiðtogi hópsins.

Politico greinir frá því að lögregla flokki mennina sem Nýnasista og að hópurinn telji sig leiðandi afl í öfgahægri senunni í Saxlandi

Stóðu fyrir árásum á innflytjendur í september

Í tilkynningu sögðu saksóknarar í Saxlandi að mennirnir hefðu áætlað að ráðast á útlendinga og stjórnmálaandstæðinga sína í vel úthugsuðum árásum.

Fimm af mönnunum eru enn fremur grunaðir um að hafa í samfloti við aðra fimm hafa staðið fyrir árásum á vegfarendur af erlendu bergi brotnu í miðbæ Chemnitz 14. september síðastliðinn.

Þar munu þeir hafa beitt flöskum sem barefli og einnig munu þeir hafa notað rafbyssu við verknaðinn.

Yfirvöld telja að árásin hafi verið upphitun fyrir stærri árás sem átti að fremja við hátíðarhöld miðvikudaginn næsta, 3. október, sameiningardag Þýskalands.

Ætluðu að útvega sér skotvopn

CNN greinir frá að meira en 100 lögreglumenn hafi komið að aðgerðunum. Lögregla greindi einnig frá að mennirnir hefðu sóst eftir því að næla sér í hálfsjálfvirka riffla.

Mennirnir verða leiddir fyrir dóm næstu daga sagði í yfirlýsingunni sem ríkissaksóknarar í Saxlandi gáfu út eftir aðgerðirnar í dag.


Tengdar fréttir

Rannsaka leka til nýnasista

Þýska lögreglan rannsakar nú hvernig handtökuskipun á hendur Íraka, sem grunaður var um stunguárás, var lekið til öfgahópa í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×