Skoðun
Þórir Garðarsson
stjórnarformaður Gray Line

Mismunun skattheimtu af ferðamönnum

Þórir Garðarsson skrifar

Aukið eftirlit með íbúðagistingu breytir litlu fyrir samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar ef seljendur á neytendamarkaði halda áfram að sleppa við að innheimta virðisaukaskatt og gistináttaskatt.

Airbnb er einn umsvifamesti seljandi gistingar hér á landi. Í fyrra var sala Airbnb hér tæpir 15 milljarðar króna. Virðisaukaskatt upp á 11% og gistináttaskatt á að innheimta af allri sölu gistingar yfir 2 milljónum króna á ári. En Airbnb kemst upp með að gera það ekki. Ef íslenskar ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur myndu ekki innheimta virðisaukaskatt af 15 milljarða króna veltu, þá væri tekið á því með mikilli hörku af skattyfirvöldum.

Sérkennileg afstaða ríkisskattstjóra

Airbnb er ekki eini söluaðili sumarhúsa, herbergja og íbúðagistingar hér á landi. Mörg íslensk og erlend fyrirtæki eru með samskonar starfsemi. Af einhverjum ástæðum horfir Ríkisskattstjóri fram hjá því að sumir aðila eru ekki að innheimta og skila í ríkissjóð virðisaukaskatti af hundruðum milljóna eða milljarða króna í veltu, heldur sættir sig við að söluaðilinn skili aðeins virðisaukaskatti af sinni þóknun þrátt fyrir að vera hinn endanlegi seljandi þjónustunnar til ferðamanna og eiga samkvæmt lögum að innheimta skattinn.

Hér hallar verulega á hótel og gististaði og aðra söluaðila. Hvernig eiga þau fyrirtæki að keppa við söluaðila gistiþjónustu á neytendamarkaði sem sleppa við að innheimta virðisaukaskatt meðan þau þurfa að gera það? Hverju á skráning og eftirlit að breyta ef samkeppnisskilyrðin verða óbreytt að öðru leyti?


Einföld lausn

Með því að krefja söluaðila á neytendamarkaði (Airbnb og alla hina) um að innheimta virðisaukaskatt og gistináttaskatt og skila í ríkissjóð mætti slá margar flugur í einu höggi. Þá þyrfti miklu færri eftirlitsmenn með skráningum. Söluaðilar jafnt og eigendur íbúða og sumarhúsa yrðu fljótir að skrá rekstur sinn hjá Ríkisskattstjóra til að nýta virðisaukaskattkerfið með réttum hætti. Þetta myndi stuðla að mun betri skattskilum og bæta samkeppnisstöðu gistiþjónustunnar.

Höfundur er stjórnarformaður Gray LineAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.