Erlent

Klifraði upp á Frelsis­styttuna til að mót­mæla inn­flytj­enda­stefnu Trump

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Konan sést hér undir hægri fæti styttunnar á meðan lögreglumenn reyna að fá hana til að koma niður.
Konan sést hér undir hægri fæti styttunnar á meðan lögreglumenn reyna að fá hana til að koma niður. vísir/ap
Kona tók sig til og klifraði upp á Frelsisstyttuna í New York í dag, 4. júlí, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, til að mótmæla innflytjendastefnu Donalds Trump, Bandaríkjaforseta. Lögreglan var með mikinn viðbúnað vegna mótmæla konunnar og var Liberty Island, eyjan sem styttan stendur á, rýmd vegna konunnar.

Lögreglan reyndi fyrst að semja við hana um að koma niður af styttunni en hún sat sem fastast þar sem hún hafði komið sér fyrir, við fætur styttunnar. Það tók lögregluna svo tvo klukkutíma að komast að konunni og taka hana höndum.

Að minnsta kosti sex aðrir mótmælendur voru handteknir við styttuna í dag þar sem þeir höfðu hengt upp fána neðst við styttuna með skilaboðum um að leggja niður útlendingastofnun Bandaríkjanna.

Bæði þau mótmæli sem og mótmæli konunnar eru tilkomin vegna harðlínustefnu Trump í innflytjendamálum sem meðal annars varð til þess að börn voru aðskilin frá foreldrum sínum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Frelsisstyttan stendur á eyju í New York-höfn, suður af Manhattan. Styttan var gjöf frá Frökkum til Bandaríkjamanna. Hún var afhjúpuð árið 1886 og bauð innflytjendur velkomna til Bandaríkjanna þar sem hún var það fyrsta sem þeir sáu áður en þeir stigu á land í Ellis Island.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.