Skoðun

Fjársjóður framtíðar

Jón Atli ­Benediktsson skrifar
Við lifum á tímum örra breytinga sem fela í sér ótal spennandi tækifæri fyrir ungt fólk. Háskólar eru aflvakar nýsköpunar og breytinga í atvinnu- og þjóðlífi. Flestar tækninýjungar og uppgötvanir sem kollvarpað hafa lífsháttum okkar eiga með einum eða öðrum hætti rætur að rekja til háskólanna.

Til þeirra má einnig rekja nýja strauma og stefnur í heimspeki, bókmenntum, hagfræði og stjórnmálum sem gerbylt hafa hugmyndum okkar um einstaklinginn og samfélagið. Í nýlegri yfirlýsingu evrópskra menntamálaráðherra er vikið sérstaklega að þessu og lögð áhersla á að hlúa að háskólastarfi, akademísku frelsi og heilindum, verja sjálfstæði háskólanna, tryggja virka þátttöku nemenda og stuðla að samfélagslegri ábyrgð og jafnrétti.

Sé horft til þeirra ævintýralegu tæknibreytinga og flóknu áskorana sem framundan eru og krefjast nýrra og þverfræðilegra lausna, sést að aldrei áður hefur verið jafnbrýn þörf fyrir fólk með fjölbreytta háskólamenntun og einmitt nú. Við skulum hafa þetta í huga þegar rætt er um takmarkanir á aðgengi að háskólanámi og þeirri spurningu er velt upp hvort of margir úr hverjum árgangi ljúki háskólanámi. Sterk rök hníga að því að okkar fámenna þjóð megi engan missa þegar kemur að nýtingu hugvits og mannauðs. Mikilvægt er að ungt fólk hér á landi, karlar til jafns við konur, fái tækifæri til að stunda háskólanám og að börn innflytjenda séu ekki afskipt þegar kemur að háskólamenntun. Í okkar litla samfélagi eru nú vel yfir tíu prósent þjóðarinnar af erlendu bergi brotin en hlutfallsleg þátttaka þeirra í háskólanámi er mun minni.

Háskólamenntun er undirstaða framfara en rannsóknir sýna að háskólagráða er líka ein besta fjárfesting einstaklingsins á lífsleiðinni. Gildi hennar birtist ekki síst í því að þeir sem lokið hafa háskólanámi telja sig almennt búa við meiri starfsánægju, betri heilsu, meiri hamingju og eru líklegri til að vera virkir í lýðræðissamfélagi en almennt gengur og gerist.

Þannig eru háskólar fjársjóður framtíðar.

Höfundur er rektor Háskóla Íslands




Skoðun

Sjá meira


×