Innlent

Fleiri gerendur leita sér hjálpar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar

Um fjórðungi fleiri gerendur í ofbeldissamböndum hafa leitað sér hjálpar hjá meðferðarstöðinni Heimilisfriði í ár en í fyrra. Flestir sem leita til þeirra eru karlar og telur sálfræðingur að umræða síðustu missera hafi leitt til sjálfsskoðunar hjá mörgum.

Meðferðarúrræðið Heimilisfriður sem rekið er á vegum Velferðarráðuneytisins hét upphaflega Karlar til ábyrgðar og var stofnað fyrir tuttugu árum. Meðferðin hefur fyrst og fremst verið fyrir karla sem beita ofbeldi í nánum samböndum þrátt fyrir að konum hafi einnig verið boðið upp á aðstoð á síðustu árum. Á þessum tuttugu árum hafa um 920 manns leitað til þeirra en undanfarið hefur orðið greinileg fjölgun, eða í kringum 25% á milli þessa árs og því síðasta.

Sálfræðingur og annar upphafsmanna úrræðisins segir mikinn stíganda í starfseminni.

„Núna undanfarna sex mánuði hafa komið rétt tæplega fimmtíu manns, nýir skjólstæðingar auk allra sem voru fyrir og allra sem eru að koma í endurkomur," segir Andrés Ragnarsson, sálfræðingur.

Barnaverndar- og lögregluyfirvöld hafa vísað fólki á úrræðið en einhverjir hafa einnig leitað það uppi sjálfir. Um 85 til 90% þeirra sem leita til Heimilsfriðar eru karlar og er það oftast alvarlegasta ofbeldið að sögn Andrésar. Hann telur umræðu síðustu missera og metoo byltinguna hafa áhrif.

„Það sem við erum að gera núna er afskaplega gott að mínu viti og við erum að opna eitthvað sem hefur verið þagað um allt, allt of lengi," segir Andrés.

Einhverjir hafi beinlínis vísað til þessa við komuna. „Ég hef ekki tölu yfir hversu margir en nokkrir hafa gert það. Vísað í það, að þá hafi eitthvað farið í gang, og þeir farið að skoða og uppgötvað hreinlega að það sem þeir voru að gera var ekki bara „eitthvað", heldur var þetta ofbeldi sem þeir voru að beita."Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.