Lífið

Stórir strákar fá raflost

Stefán Pálsson skrifar
Met var slegið í forsölu miða í íslensku leikhúsi fyrr á árinu þegar Borgarleikhúsið hóf sölu á sýninguna Rocky Horror Show. Það kom í sjálfu sér ekki á óvart. Verkið hefur notið vinsælda víða um lönd allt frá því að var fyrst sett á svið í Lundúnum árið 1973. Vinsældirnar þá voru þó ekki eins fyrirséðar, því upphaflega var búist við að þessi skringilegi og tilraunakenndi söngleikur yrði ekki á fjölunum nema í fáeinar vikur.

Það var ungur bresk/nýsjálenskur leikari, Richard O’Brien, sem skrifaði verkið og samdi lögin í söngleiknum, en við sviðsetninguna naut hann aðstoðar ástralsks leikstjóra, Jims Sharman. Söguþráðurinn er hálfgert rugl, enda hugsaði O’Brien mest um að hræra saman sínum ólíku áhugamálum, sem snerust að miklu leyti um ódýrar gamlar bíómyndir, sem helst fjölluðu um vísindaskáldskap og sígilda bandaríska rokk og ról-tónlist. Raunar hafði listamaðurinn nánast þráhyggjukenndan áhuga á hvers kyns amerískri dægurmenningu.

Rocky Horror Show var óður til gömlu geimmyndanna, en í verkinu er líka teflt saman klisjum um bandarískt millistéttar-úthverfalíf sjötta áratugarins og kynlífsbyltingu og glysrokk þess áttunda. Siðprúðu turtildúfurnar Brad og Janet, holdtekjur ameríska draumsins, lenda í skuggalegum ævintýrum hjá kynóðum geimverum í gotneskum kastala og ganga á vald holdlegum fýsnum sínum. Saman við skringilegan og örlítið dökkan söguþráðinn var svo blandað glaðværri og kröftugri dægurtónlist.

Velgengni verksins í Lundúnum var ekki hvað síst að þakka frammistöðu aðalleikarans, Tims Curry, í hlutverki hins gjörspillta og sturlaða vísindamanns Franks N. Furter. Curry og O’Brien þekktust frá því að þeir unnu saman að uppsetningu á söngleiknum Hárinu nokkrum árum fyrr. Hlutverkið smellpassaði fyrir hinn unga Curry og lagði grunninn að glæstum ferli hans sem stendur enn.

Það lá því beint við að fá Tim Curry í aðalhlutverkið þegar ákveðið var að koma söngleiknum á hvíta tjaldið tveimur árum síðar. Bandaríski kvikmyndarisinn 20th Century Fox tryggði sér kvikmyndaréttinn og sumarið 1975 var The Rocky Horror Picture Show frumsýnd vestan hafs og austan. Þrátt fyrir að framleiðandinn og stór hluti leikarahópsins væri bandarískur, var myndin tekin upp í Bretlandi þar sem notast var við gamlar byggingar og leikmuni frá Hammer-kvikmyndafyrirtækinu, sem framleitt hafði margar af gömlu hryllingsmyndunum sem Rocky Horror Show vísaði svo mjög til.

Sígandi lukka

Viðtökur kvikmyndahúsagesta ollu framleiðendunum sárum vonbrigðum. Aðsókn var afar dræm og stefndi í stórtap á myndinni. Þurfti meðal annars að hætta við sýningar í fjölda bandarískra stórborga vegna áhugaleysis. Richard O’Brien og kvikmyndamógúlarnir sleiktu sár sín, en rúmlega ári síðar fór boltinn skyndilega að rúlla.

Í kjölfar óvæntra vinsælda hinnar skringilegu bíómyndar Pink Flamingos eftir John Waters á miðnætursýningum í nokkrum kvikmyndahúsum, var ákveðið að reyna slíkt hið sama með Rocky Horror Picture Show. Nær samstundis braust út Rocky Horror-æði í New York. Myndin eignaðist ástríðufulla aðdáendur sem sáu hana jafnvel mörg hundruð sinnum og kvikmyndasýningarnar urðu að sjálfstæðum leikverkum, þar sem áhorfendur mættu í klæðnaði aðalsöguhetjanna og tóku að dansa og syngja í takt við framvindu myndarinnar. Frá New York breiddist æðið út um Bandaríkin og víðar um lönd. Stofnaðir voru aðdáendaklúbbar og skipulagðar voru ráðstefnur Rocky Horror-aðdáenda vítt og breitt. Innan fárra ára var The Rocky Horror­ Picture Show, þrátt fyrir floppið á frumsýningarárinu, komin í hóp þekktari kvikmynda.

Það er gömul saga og ný í Hollywood að velgengni mynda kveikir þegar áhuga fjárfesta á framhaldsmyndum til að halda áfram að nytja mjólkurkúna. Þrýstingurinn á O’Brien að semja einhvers konar framhald með gömlu aðalpersónunum var því talsverður. Næstu misserin braut hann heilann um hvernig endurvekja mætti Frank N. Furter (sem var drepinn með leysigeislabyssu í myndinni – engin Höskuldarviðvörun) og láta þau Brad og Janet lenda í nýjum ævintýrum. O’Brien samdi raunar slíkt handrit og er rétturinn til að kvikmynda það enn í höndum 20th Century Fox, en litlar líkur eru þó taldar á að það verði að veruleika úr þessu.

Handritið að þessari fyrirhuguðu framhaldsmynd hefur lekið út og er það mjög í anda gömlu myndarinnar, með fjarstæðukenndum söguþræði og áherslu á siðspilltar geimverur í eggjandi korselettum. Jim Sharman taldi hins vegar félaga sinn ofan af því að reyna að herma um of eftir gömlu myndinni og hvatti hann til að teygja söguna frekar í aðrar áttir. Niðurstaðan varð handritið „The Brad and Janet Show“, þar sem Frank N. Furter var fjarri góðu gamni, en athyglinni fremur beint að afdrifum þeirra Brads og Janetar eftir kynnin af geimverunum með brókar­sóttina. Framleiðendur reyndust fúsir til samstarfs og undirbúningsvinna hófst af kappi á árinu 1979.

Úthverfalíf og auglýsingaskrum

Grunnhugmynd O’Briens var að nýja myndin skyldi gerast í dæmigerðu bandarísku úthverfi, þar sem Brad og Janet hefðu búið sér heimili en þjáðust í ástlausu hjónabandi. Í stað nostalgískra vísana til lélegra bíómynda fimmta áratugarins, beindi höfundurinn nú spjótum sínum að lágkúrulegri sjónvarpsmenningu samtíma síns og geðveikrahælum. Íbúar smáborgarinnar lifðu og hrærðust í sjónvarpsheimi, þar sem allt gekk út á að fylgjast með gerviveröld sápuópera og veruleikasjónvarpsþátta.

Draumur þeirra O’Briens og Sharmans var að leiða saman sem allra flesta af leikurunum úr fyrri myndinni, jafnvel þótt flestir þeirra yrðu látnir túlka nýjar persónur. Þegar nær dró kvikmyndatökum gengu þó sífellt fleiri úr skaftinu. Susan Sarandon, sem leikið hafði Janet, var orðin stórstjarna í Hollywood og gerði hærri launakröfur en framleiðendurnir gátu staðið undir. Eins þurfti að finna nýjan leikara í hlutverk Brads, þar sem Barry Bostwick hafði öðrum hnöppum að hneppa. Tim Curry hafði tekið vel í að leika í nýju myndinni, en að lokum náðust samningar ekki og sama gilti um nokkra aðra úr gamla hópnum. Allt kallaði þetta á sífelldar endurskriftir á handritinu, sem gerðu það flóknara og ruglingslegra.

Það var þó leikaraverkfall árið 1980 sem mestu breytti fyrir lokaútkomuna. Verkfallið setti alla kvikmyndaframleiðslu í Bandaríkjunum í uppnám og var því ákveðið að taka myndina upp í Englandi. Þar var hvergi að finna tökustaði sem líkst gætu bandarískum úthverfum. Því varð úr að láta myndina alla gerast í kvikmyndaveri, þar sem íbúarnir væru gestir í sjónvarpssal í endalausri beinni útsendingu. Brad og Janet eru kölluð fram fyrir myndavélina í spurningaleik og í kjölfarið stíað í sundur. Brad er sendur á geðveikrahæli, þar sem sprautu­glaðir læknar ráða ríkjum, en Janet er dubbuð upp sem sjónvarpsstjarna sem sér að lokum í gegnum allan tryllinginn og blekkingarnar.

Spámaður án föðurlands

Myndin sem að lokum kom út úr þessu langa ferli umskrifta og aðlagana hlaut nafnið „Shock Treatment“ eða „Raflostið“ – sem er kyndugt í ljósi þess að þótt í henni sé talsvert vikið að geðsjúkrahúsum, koma raflostsmeðferðir ekkert við sögu. Skemmst er frá því að segja að Shock Treatment varð enn meira flopp en fyrri myndin og kostaði framleiðendur sína stórfé. Gagnrýnendur voru upp til hópa neikvæðir og aðalmarkhópurinn: Rocky Horror-­aðdáendur tóku myndinni almennt illa. Tengingin við gömlu myndina var óljós, ekki hvað síst í ljósi breytinganna á leikaraliðinu og yfirbragðið gjörólíkt.

Eftir á að hyggja hefðu þessi neikvæðu viðbrögð ekki þurft að koma á óvart. Á meðan fyrri myndin einkenndist af fortíðarþrá og endurliti, dró sú nýja upp martraðarkennda framtíðarmynd. Furðulegur bræðingur glysrokks áttunda áratugarins og klisja úr vísindaskáldsögum þess fimmta og sjötta var ekki jafn yfirþyrmandi og ágengt myndmál tónlistarmyndbanda níunda áratugarins.

Velta má því fyrir sér hvort neikvæðni Rocky Horror-aðdáenda í garð nýju myndarinnar hafi tengst því hversu föstum skotum Richard O’Brien skaut á þennan sama hóp í verkinu. Heilaþvegnu áhorfendurnir í sjónvarpssalnum í Shock Treatment hafa mörg einkenni Rocky Horror-unnenda, lifa sig inn í útsendinguna á sama hátt og tíðkast hafði á Rocky Horror-sýningum og klæðast eins. Ef til vill var þetta gaman örlítið of grátt fyrir hina dyggu aðdáendur?

Aðrir benda á þá ranghugmynd sem felist í því að reyna að búa til framhaldsmynd sem miðist að unnendum jaðarmyndar af þessu tagi. Aðdáendur Rocky Horror Picture Show hafi einmitt laðast að myndinni þar sem hún hafi ekki fallið í kramið. Þannig hafi hver og einn getað uppgötvað hana á sínum eigin forsendum og þannig synt gegn straumnum. Útilokað sé því að búa til mynd sem gagngert miðist að þessum viðtökuhóp, sem vilji ekki láta hugsa fyrir sig.

Á allra síðustu árum hefur Shock Treatment þó eignast nokkurn hóp unnenda. Skiptir þar máli að tónlistin í henni er prýðileg og af svipuðum gæðum og í fyrri myndinni. Í annan stað má segja að sú spásögn um firrt sjónvarpssamfélag sem í henni birtist hafi ræst ótrúlega vel með veruleikasjónvarpsþáttum samtímans. Raflostið talar því betur til samtíma okkar en ársins 1981 þegar það var frumsýnt við litlar undirtektir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×