Meirihlutinn í borginni vill allt uppá borð varðandi hinn umdeilda bragga í Nauthólsvík. „Allt skal upplýst í þessu máli frá upphafi til enda,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur birti stuttan pistil á Facebooksíðu sinni nú rétt í þessu þar sem hann fordæmir fortakslaust hvernig staðið hefur verið að endurbyggingu braggans.
Vísir hefur fjallað ítarlega um kostnað vegna endurbyggingarinnar og víst er að mörgum er brugðið vegna hins mikla kostnaðar. Síðast var rætt við Dóru Björt Guðjónsdóttur, oddvita Pírata í borginni, og hún segir sér fallast hendur gagnvart þessum mikla kostnaði og kallar eftir sundurliðuðum reikningum.
„Endurgerð húsanna og braggans í Nauthólsvík er alvarlegt dæmi um framkvæmd sem fer langt fram úr áætlun. Fregnir af einstaka reikningum og verkþáttum undanfarna daga kalla augljóslega á skýringar og undirstrika mikilvægi þess að málið er komið í hendur innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar.“
Dagur segir að til að undirstrika alvöru málsins ætli meirihlutinn í borgarstjórn að leggja fram tillögu til samþykktar í borgarráði á morgun.
„Til að árétta að enginn angi málsins skal vera undanskilinn og allt skal upplýst í þessu máli frá upphafi til enda,“ segir Dagur. En, mjög hefur verið kallað eftir viðbrögðum borgarstjóra vegna framkvæmdarinnar.
Dagur fordæmir framkvæmd við endurgerð braggans

Tengdar fréttir

Rúmar 100 milljónir fóru í braggann í Nauthólsvík án útboðs
Mikið hefur verið fjallað um braggaframkvæmdina sem fór mörg hundruð milljónir fram úr áætlun. Kostnaður við hann endaði í 404 milljónum.

Vigdís krefst þess að náðhúsið verði rætt sérstaklega í borgarstjórn
Vigdís Hauksdóttir furðar sig á miklum kostnaði við endurbyggingu braggans í Nauthólsvík.

„Höfundarréttarvarin“ strá við braggann kostuðu 757 þúsund krónur
Forseti borgarstjórnar segir augljóst að þar sé farið illa með skattfé borgarbúa.