Innlent

Heimilislausir þjófar herja á Laugarneshverfi

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Lögreglan hefur haft afskipti af parinu sem herjað hefur á íbúa Laugarneshverfis. Íbúar eru hvattir til að læsa hurðum og hafa augun opin fyrir grunsamlegum mannaferðum. Myndin tengist efni fréttar ekki.
Lögreglan hefur haft afskipti af parinu sem herjað hefur á íbúa Laugarneshverfis. Íbúar eru hvattir til að læsa hurðum og hafa augun opin fyrir grunsamlegum mannaferðum. Myndin tengist efni fréttar ekki. vísir/Ernir
Ungt heimilislaust par er grunað um röð innbrota og þjófnaðarmála í Laugarneshverfi í Reykjavík í vikunni og hafa margir íbúar í hverfinu verulegar áhyggjur. Lögreglan hefur haft ítrekuð afskipti af parinu og bíður þess að það brjóti af sér aftur svo skilyrði síbrotagæslu verði uppfyllt. Þangað til þurfa íbúar að hafa augun opin og dyrnar læstar.

„Það er bylgja í innbrotum þarna og okkur grunar að megnið af þeim tengist þeim,“ segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Hann segir lögregluna fylgjast náið með gangi mála.

„Við erum með þau í gjörgæslu. Þau þurfa að fá ákveðið mörg brot á sig til að hægt sé að setja þau í síbrotagæslu og við erum að vinna í þessu. Vonandi náum við innan tíðar að klára þetta.“

Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Nokkur umræða hefur skapast um innbrotafaraldurinn í Facebook-hópi íbúa í hverfinu þar sem þolendur þjófaparsins greina frá raunum sínum. Þar gefur að líta frásagnir af stolnum bíl, innbrotum í bíla, innbrotum í bílskúra og heimili þar sem verðmætum er stolið. Jóhann Karl segir að brotist hafi verið inn í fyrirtæki sömuleiðis.

Greina má áhyggjur og ótta meðal margra íbúa sem þar taka til máls en líka samúð með ógæfu og aðstæðum parsins sem þurfi fyrst og fremst á úrræðum og aðstoð að halda. Jóhann Karl staðfestir að hið unga par sé heimilislaust og glími við geðræn vandkvæði.

Hann segir mál sem þessi taka tíma og til að koma þeim í síbrotagæslu þurfi einstaklingar að brjóta nokkrum sinnum af sér.

„Við getum tekið þau úr umferð einn dag til yfirheyrslu en síðan fara þau út og koma aftur inn. Síbrotagæsla er úrræði til að geta látið fólk, sem getur ekki gengið laust vegna þess að það er alltaf að brjóta af sér, sitja inni þar til dómar falla í málinu.“

Það eina sem íbúar hverfisins geti í raun gert sé að gæta þess að læsa að sér og hafa augun opin fyrir grunsamlegum mannaferðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×