Liðsmenn sveitarinnar hafa löngum lýst bandinu sem því „mest æfða á landinu“ en þeir hófu samstarf á námsárum sínum í Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1973.
Í tilkynningu frá sveitinni segir að á þeim árum hafi verið aðrar hljómsveitir sem stálu athyglinni afar óverðskuldað, til að mynda Stuðmenn, Spilverkið og Diabolus in Musica, sem einn meðlimur Blúsbandsins starfaði reyndar einnig með.
„Með tímanum höfum við þó komist á þá einbeittu skoðun, að þjóðinni sé hollt að kynnast afurðum BBJB á upptökum áður en meðlimir, sem eru orðnir rúmlega sextugir, hrökkva upp af. Við brugðum okkur því í stúdíó og tókum upp fjögur lög. Ekkert þeirra flokkast undir blús.

Lögin eru fjögur talsins og sögð vel viðeigandi fyrir lífsreynda karlmenn sem hafa allskonar bíla- og kvennavandamál. Nefnast þau Fiskur og slor, Eitt hliðarspor, Græna og hvíta skruggan og Svörtu tárin.
Liðsmenn Blúsbandsins eru þeir Jón Baldur Þorbjörnsson (söngvari og bassaleikari sveitarinnar og starfar annars að ferðamálum), Páll Torfi Önundarson (a.k.a. „Dr. Blood“ sem spilar á gítar, syngur helst ekki og starfar annars sem yfirlæknir á Landspítala og prófessor í blóðsjúkdómum við læknadeild Háskóla Íslands), Kristján Sigurmundsson (betur þekktur sem „Stjáni saxófónn“, syngur, gítar, hljómborð, slagverk, munnharpa og starfar sem forstöðumaður hjá Reykjavíkurborg ), Kjartan Jóhannesson (syngur og spilar á gítar, en er annars elsti starfsmaður Reiknistofu bankanna en er þó ekkert mjög gamall) og svo Einar Sigurmundsson (trommari, handbókahöfundur auk þess að starfa við íslenskun tæknilegs efnis).

