Innlent

Börnin voru alltaf hrædd

Snærós Sindradóttir skrifar
Haraldur Ólafsson var alinn upp á Kópavogshæli frá þriggja ára aldri. Hann er með fulla greind en spastískur.
Haraldur Ólafsson var alinn upp á Kópavogshæli frá þriggja ára aldri. Hann er með fulla greind en spastískur. vísir/anton brink
„Mér var hótað að ef ég gerði ekki hitt og þetta yrði ég lokaður inni. Ég var kannski átta ára,“ segir Haraldur Ólafsson sem var alinn upp á Kópavogshæli frá þriggja ára aldri. Hann er með fulla greind en spastískar hreyfingar og var fluttur á Kópavogshæli þegar móðir hans lést. Í viðtali við Stöð 2 árið 2012 sagði Haraldur að hann hefði skriðið fyrstu ellefu ár ævi sinnar.

Í samtali við Fréttablaðið segir hann ástandið á Kópavogshæli oft hafa verið hrikalegt. „Maður var hræddur við geðveikt fólk og passaði að koma ekki nálægt því. En það voru mikil högg og læti.“ Haraldur lýsir því hvernig hávaði, högg og tryllingur fullorðinna vistmanna hafi verið hræðileg upplifun fyrir börn og orðið til þess að hann var oftar en ekki skelfingu lostinn. Vistmenn hafi barið í veggi og tekið alvarleg bræðisköst sem börnin, sem voru vistuð á meðal fullorðinna, upplifðu og sáu.

Þessu til staðfestingar má nefna dæmi úr dagbókum Kópavogshælis: „Allt í uppnámi í kvöld, X hafði svo hátt að hann ærði börnin.“ 

Haraldur sjálfur varð ekki fyrir líkamlegu ofbeldi en var reglulega hótað að vera lokaður inni ef hann hegðaði sér ekki í samræmi við óskir starfsfólks. Hann segist oft hafa séð börn lokuð inni og að það hafi verið mjög erfitt að horfa upp á það þegar börnin komu aftur úr slíkri einangrunarvist.

Í skýrslu vistheimilanna segir að starfsfólk hafi stöðugt gagnrýnt aðbúnað á Kópavogshælinu en forstöðufólk þess hafi haft litla trú á framförum eða nýjungum. Lengst af var Ragnhildur Ingibergsdóttir yfirlæknir og eiginmaður hennar, Björn Gestsson, forstöðumaður. Björn var forstöðumaður hælisins frá 1956 til 1987 og skólastjóri Þroskaþjálfaskólans til 1977. Björn lést árið 1992 en í minningargrein um hann segir að eftir að Björn aflaði sér sérþekkingar erlendis hafi þau hjónin hafið að stýra stofnuninni. Þá segir: „Þetta olli þáttaskilum í aðstöðu vangefinna. Á fáum árum reis myndarleg og nýtískuleg stofnun sem veitti góða umönnun og kennslu. Vandræði fjölmargra vangefinna og aðstandenda þeirra var nú hægt að leysa á farsælan hátt. Með þessu var horfið frá myrku miðaldastigi þessara mála á Íslandi til nútímalegrar heilbrigðisþjónustu og fræðslu.“

Hrefna Haraldsdóttir, þroskaþjálfi og fyrrverandi starfsmaður Kópavogshælis.mynd/stöð 2
Hrefna Haraldsdóttir þroskaþjálfi hóf störf á Kópavogshæli árið 1959, þá sautján ára gömul. Hún segir að aðstaðan og umhverfið hafi verið óboðleg, sérstaklega fyrir börn. Viðhorfið hafi verið að fatlað fólk væri annars flokks borgarar og að ekki væri gott ef börnin sem dvöldu á Kópavogshælinu ættu í of miklum samskiptum við foreldra sína. „Það var heimsókn einu sinni í viku, á sunnudögum frá þrjú til fimm. Ef foreldrar ætluðu að koma á öðrum tíma þurfti sérstakt leyfi frá yfirfólkinu. Okkur var uppálagt að gefa sem minnstar upplýsingar því annað myndi valda óróa hjá foreldrum,“ lýsir Hrefna.

Hún sagði að talað væri um að það væri ekki gott fyrir vistmenn og samfélagið ef þau færu of mikið út. Einangrunin hafi því verið gríðarleg. Aðspurð hvernig börnin upplifðu þennan mikla viðskilnað og samskiptaleysi við foreldra sína segir Hrefna: „Þau bara, því miður, gáfust svolítið fljótt upp. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig börnunum leið. Börnin voru nær alltaf mjög hrædd.“ 

Áfellisdómar frá fyrri tíð

Skýrslan nú er ekki sú fyrsta sem hefur verið gerð um hælið. Strax árið 1962 voru gerðar athugasemdir við fjölda og aðbúnað vistfólks. Fjórum áður síðar var niðurstaða annarrar skýrslu að starfsemin væri í alvarlegri hættu ef ekkert væri gert. Fleiri skýrslum var skilað á næstu áratugum.

Við gerð skýrslunnar var stuðst við sjúkraskýrslur auk viðtala við vistmenn, aðstandendur og starfsfólk. Af um hundrað vistmönnum sem eru á lífi gátu átta tjáð sig um dvöl sína. Hér má finna nokkur dæmi úr skýrslunni.

„Þetta var skelfilegt umhverfi, það var mjög erfitt að vera á hælinu, alls konar fólk sem maður var hálfhræddur við, hræddur alla daga og ennþá hræddur við fólk … hræddur þegar fólk fór í geðveikisköst […] Ég var mikið úti … ég var bara að flýja fólkið af því að ég var hræddur.“

Systir X lýsti því hvernig hún hefði ekki verið í mjaðmalið, verið farin að öskra og bíta sig í hendurnar af sársauka en þá lokuð inni vegna þess hve illa hún lét. „[Þ]etta skemmdist, mjaðmarkúlan var farin út … farin að búa til nýja holu, nýja skál … þið getið ímyndað ykkur sársaukann.“

Starfsmaður hafði eftir lækni að á Kópavogshæli hefði starfsmaður ætlað að venja vistmann af óhóflegri kaffidrykkju með því að setja mikið salt í kaffið hans, sem endaði með því að vistmaðurinn dó úr saltsjokki.

Stúlkum voru gefnar getnaðarvarnarpillur eða ófrjósemisaðgerðir framkvæmdar á þeim þegar þær fóru á blandaðar deildir. Með því móti þurftu þær ekki jafn mikla vöktun. Í skýrslunni er ekki að finna dæmi um kynferðisofbeldi af hálfu starfsfólks en grunur er á slíku af hálfu vistmanna. „Í gær stóð ég sjúkling að því að vera að leika sér að kynfærum á öðrum sjúklingi, sem er örviti,“ er ritað í vaktbók.

„Þá sagðist X hafa fengið tannpínu en ekki verið farið með hann til tannlæknis heldur hefði hann verið bundinn niður í stól og tönnin dregin úr án nokkurrar deyfingar. Hefði hann öskrað og grátið en þá verið „hent niður í kjallara“ og sagt að koma ekki upp fyrr en hann hætti að gráta.“

Faðir vistmanns: Við báðum um að X yrði ekki sagt fyrr en samdægurs að [foreldrar] ætluðu að heimsækja hann. Annars hefði X rúllað hjólastólnum að dyrum, hvorki þegið vott né þurrt heldur beðið eftir að vera sóttur. Á leið til baka hefði X grátið allan tímann.

Starfsfólk gagnrýnir sérstaklega að einum starfsmanni hafi verið ætlað að sjá um margar deildir. Nokkrir fyrrverandi starfsmenn lýsa gömlu karla- og kvennadeildunum sem skelfilegum. „Þarna voru bara karlar æðandi um, mismikið klæddir og sumir allsberir, ekkert starfsfólk að sinna þeim … opnaði inn í sellu, þar var alblóðugur maður, allsber, búinn að berja höfðinu utan í veggi, um leið og ég opna kemur starfsmaður hlaupandi og gargaði: ,Lokaðu, læstu aftur!“

Fyrrverandi starfsmaður: „Man eftir einum á deildinni hjá mér … var að vakna upp [á nóttunni] og kastaði svo mikið upp og titraði og skalf og var eins og það væri að líða yfir hann … þetta var hræðilegt og ég var búinn að láta vita af þessu tvisvar, þrisvar … loksins farið með hann til læknis og þá kom í ljós að hann var með svona mikið hvítblæði og hann dó stuttu seinna.“

Fyrrverandi starfsmaður: „Er það vanþekking eða virðingarleysi að einstaklingur fer í aðgerð og gleymist í gifsi … í margar vikur og er ekki tekinn úr gifsinu og þegar hann er tekinn úr gifsinu þá er hann orðinn stífur í mjöðmum, getur ekki setið og er kominn með mjög slæma hryggskekkju, er það ill meðferð? Já það er það …“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×