Innlent

Sif Gunnarsdóttir ráðin skrifstofustjóri menningarmála borgarinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Sif hefur stýrt Norræna húsi Færeyja síðasta árið.
Sif hefur stýrt Norræna húsi Færeyja síðasta árið. Reykjavíkurborg
Sif Gunnarsdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri menningarmála hjá Menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar. Hún mun meðal annars stýra viðburðateymum helstu hátíða borgarinnar eins og Menningarnætur.

Alls sóttu 54 um stöðuna sem var auglýst 3. nóvember. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að Sif hefur stýrt Norræna húsinu í Færeyjum undanfarin ár en húsið er stærsta menningarstofnun Færeyja og sinnir öllum tegundum lista og menningar. Hún tekur við starfinu á næsta ári.

Sif er með meistaragráðu í menningarmiðlun frá Háskólanum í Óðinsvéum, B.A. í danskri tungu og bókmenntun og diplómanám í rekstrarhagfræði. Hún var forstöðumaður Höfuðborgarstofu á árunum 2007 til 2013 og þar áður verkefnastjóri viðburða hjá Höfuðborgarstofu, menningarfulltrúi í Gerðubergi og aðstoðarforstöðumaður Gerðubergs.

Skrifstofustjóri menningarmála hjá Menningar- og ferðamálasviði annast almenna stjórnsýslu á vettvangi menningarmála og sér um starfssamninga, húsnæðissamninga, afgreiðslu styrkja og viðurkenningar. Skrifstofustjóri ritstýrir auk þess starfsáætlun sviðsins og heldur utan um mótun menningarstefnu, uppfærslu aðgerðaáætlunar, árangursmat sviðsins í menningarmálum og ýmis sérverkefni sem henni er falið af sviðsstjóra.

Frá og með áramótum stýrir skrifstofustjóri einnig viðburðateymi Menningar- og ferðamálasviðs sem sér um Vetrarhátíð í Reykjavík, Barnamenningarhátíð, 17. júní, Menningarnótt, tendrun Friðarsúlunnar og aðventuhátíð í desember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×