Innlent

Nýr félags-og jafnréttismálaráðherra í sókn gegn fátækt

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Allt kapp verður lagt á að sporna gegn fátækt barna að sögn nýs félags-og jafnréttismálaráðherra.
Allt kapp verður lagt á að sporna gegn fátækt barna að sögn nýs félags-og jafnréttismálaráðherra. vísir/pjetur
Fyrsta verk nýs félags-og jafnréttismálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, verður að kortleggja þær leiðir sem eru færar til þess að sporna gegn fátækt og þá sérstaklega fátækt barna.

Ásmundur Einar kallar í næstu viku saman hóp hagsmunaaðila og sérfræðinga á sviði fátæktar og verður sá málaflokkur forgangsmál hjá nýjum félags-og jafnréttismálaráðherra. Samtökin Barnaheill er á meðal þeirra sem boðuð verða til fundar.

„Ég mun kalla til mín fólk sem hefur sérþekkingu á þessu sviði og fólk sem hefur látið að sér kveða á þessu sviði, bæði í kerfinu og í stjórnmálunum og víðar. Þetta á að vera verkefni okkar allra, að mér finnst,“ segir Ásmundur Einar í samtali við Vísi.

Ásmundur Einar vekur athygli á því að áhersla sé á lögð á að sporna gegn fátækt barna í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

„Þetta er eitt af þeim verkefnum sem ég vil leggja áherslu á í mínu starfi og það er allt sem snýr að börnum og þá sérstaklega fátækt barna. Af öllum öðrum mikilvægum málum þessa málaflokks þá finnst mér þetta vera það sem ég vil byrja á og ætla að byrja á því strax í næstu viku.“

Ásmundur Einar vill að við sem samfélag snúum bökum saman og leitum leiða til þess að draga úr fátækt barna eins og frekast er unnt. „Ég vil beita mínum kröftum í þágu þessa verkefnis.“

Hvernig leggst nýja starfið í þig?

„Þetta leggst bara vel í mig. Þetta verður auðvitað mikil ábyrgð og vinna en ég hlakka til að takast á við verkefnið og mun leggja mig allan fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×