Innlent

Hópmálsókn vegna starfsleyfis Arnarlax vísað frá dómi

Kjartan Kjartansson skrifar
Arnarlax á Bíldudal er stærsta fiskeldisfyrirtæki landsins.
Arnarlax á Bíldudal er stærsta fiskeldisfyrirtæki landsins. Vísir/Pjetur
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá kröfu um ógildingu starfsleyfis laxeldisfyrirtækisins Arnarlax fyrir sjókvíaeldi í Arnarfirði. Eigendur veiðiréttar og veiðifélag voru á meðal stofnenda málsóknarfélagsins sem höfðaði málið.

Málsóknarfélagið stefndi Matvælastofnun og Umhverfisstofnun sem veittu starfsleyfið auk fyrirtækisins sjálfs. Að félaginu stóðu eigendur veiðiréttinda og hlunninda í nágrenninu, landeigandi sem telur sig verða fyrir sjónmengun af kvíastæði Arnarlax og Veiðifélag Laxár á Ásum.

Töldu stefnendur sterkar líkur á því að sjókvíaeldið í Arnarfirði skaðaði varanlega hagsmuni af nýtingu lax- og silungsveiðihlunninda þeirra og hagsmuni þeirra á grundvelli grenndarréttar.

Héraðsdómur vísaði hins vegar til þess hversu ólíkar aðstæður aðilar málsóknarfélagsins hefðu en skilyrði hópmálsókna er að kröfur þeira sem eiga aðild að henni eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings.

Taldi dómurinn ekki útilokað að félögin Akurholt og Geiteyri auk Veiðifélag Laxár á Ásum gæti átt lögvarða hagsmuni af því að fá starfsleyfi Arnarlax ógilt.

Hagsmunir aðila hópmálsóknarinnar væru hins vegar ekki nógu einsleitir til að þeir uppfylltu skilyrði laga um slíkar málsóknir. Því var kröfu málsóknarfélagsins vísað frá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×