Innlent

LungA hlaut heiðursviðurkenningu Erasmus+

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Heiðursverðlaunahafarnir Björt Sigfinnsdóttir, Aðalheiður Borgþórsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Ólafur Daði Eggertsson, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Önnu R. Möller, starfsmanni Erasmus+, við verðlaunaafhendinguna í dag.
Heiðursverðlaunahafarnir Björt Sigfinnsdóttir, Aðalheiður Borgþórsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Ólafur Daði Eggertsson, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Önnu R. Möller, starfsmanni Erasmus+, við verðlaunaafhendinguna í dag. Aðsent

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti í dag LungA – Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, heiðursviðurkenningu við hátíðlega athöfn á afmælishátíð Erasmus+ sem fram fór í Hörpu. Björt Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri LungA, og Aðalheiður Borgþórsdóttir, einn af stofnendum LungA, tóku við viðurkenningunni. LungA hefur í meira en áratug nýtt sér fjölbreytta styrki í æskulýðshluta Erasmus+ til að byggja upp fjölþjóðlega listahátíð og LungA skólann, fyrsta lýðháskóla á Íslandi. Unnið er út frá hugmyndafræðinni um styrkingu sjálfsins í gegnum listir og skapandi vinnu.

Heiðursviðurkenningin er veitt í tilefni af 30 ára afmæli Erasmus+ í ár. Á afmælishátíðinni voru jafnframt veittar gæðaviðurkenningar Erasmus+ fyrir framúrskarandi Evrópuverkefni og hlutu sex verkefni, sem hafa verið styrkt af áætluninni, viðurkenningarnar í ár.

„Dómnefnd horfði til gæða, nýsköpunar, yfirfærslumöguleika, áhrifa, varanleika og verkefnastjórnunar við val á verðlaunaverkefnunum. Auk verðlaunaverkefnanna veitti mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, Evrópumerkið, viðurkenningu á sviði tungumálanáms og kennslu,“ segir í tilkynningu frá Rannís, Rannsóknarmiðstöð Íslands.

Aðrir sem hlutu viðurkenningu voru Listaháskóli Íslands, Skólaþjónusta Árborgar, Tækniskólinn - skóli atvinnulífsins, EVRIS, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Leikskólinn Holt í Reykjanesbæ og Borgarbókasafnið. Erasmus+, mennta- og æskulýðsáætlun ESB, er stærsta mennta- og æskulýðsáætlun heims. Rannís hýsir Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi og úthlutar árlega tæplega 1.000 milljónum króna til fjölbreyttra mennta- og æskulýðsverkefna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.