Innlent

Ók á 140 kílómetra hraða á Reykjanesbraut á meðan hann horfði á Youtube myndband

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ökumaðurinn sá ekki lögreglubílinn þar sem hann var að horfa á símann sinn.
Ökumaðurinn sá ekki lögreglubílinn þar sem hann var að horfa á símann sinn. Vísir/Getty
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í vikunni ökumann fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut og hafði hann verið í símanum undir stýri. Lögreglumenn voru í eftirlitsferð á Reykjanesbrautinni og óku á löglegum hraða þegar sportbifreið var ekið fram úr á mikilli ferð. Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum var bifreiðinni veitt eftirför og svokölluð jafnhraðamæling framkvæmd. 

„Við náðum ekki að halda jöfnu bili fyrr en hraðinn var orðin 140 km/klst. Við gáfum þessum ökumanni merki um að stöðva sem hann og gerði strax. Í viðræðum við ökumann þá viðurkenndi hann að hafa ekki séð okkur. Hann var nefnilega í símanum,“

segir í færslu sem birtist um atvikið á Facebook-síðu lögreglunnar.

„Er hann var spurður hvort hann hafi virkilega verið á 140 km hraða að tala við einhvern í símanum þá neitaði hann því, nú var þetta orðið svolítið flókið. En hann náði að útskýra þetta allt saman. Hann var ekki að tala í símann, heldur var hann að skoða myndband á Youtube.“

Ökumaður sportbifreiðarinnar var færður á lögreglustöð þar sem hann er einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Lögreglan hvetur ökumenn til þess að vera snjalla undir stýri.

„Í guðs bænum látum símann vera á meðan við erum í akstri, það er ekkert það mikilvægt að þú stofnir þér eða öðrum í þá hættu sem af þessu skapast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×