Lífið

Þegar menntamálaráðherrann lagði niður zetuna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Magnús Torfi Ólafsson.
Magnús Torfi Ólafsson. vísir/gva
„Uppgjöf eða eðlileg breyting?“ Svo hljóðaði spurningin sem blasti við lesendum Morgunblaðsins að morgni 5. september árið 1973 en degi áður hafði Magnús Torfi Ólafsson menntamálaráðherra ákveðið að leggja skildi zetuna niður.

„Það hafði komið í ljós, þegar nefndin sem vinnur að endurskoðun stafsetningarinnar, var farin að starfa að algjör samstaða var innan hennar um þessa sérstöku breytingu,“ vitnaði blaðamaður Morgunblaðsins óbeint í ráðherra.

Auk Magnúsar spurði Morgunblaðið fimm karlmenn út í ákvörðunina. Halldór Halldórsson, prófessor og formaður nefndarinnar, sagði að líta mætti svo á sem þetta væri róttæk breyting. „Það má líka segja, að þetta sé hvarf til fyrri tíma, vegna þess að þetta er mjög svipað ástand og var fyrir 1929.“

Baldur Jónsson lektor var hins vegar ósáttur við brotthvarf zetunnar og aðrar stafsetningarbreytingar sem gerðar voru samtímis. „Yfirleitt er það mikill ábyrgðarhluti að breyta stafsetningu og það gera menningarþjóðir alls ekki, nema þær séu til neyddar. Þetta veldur miklu meira raski, en menn koma auga á í fljótu bragði.“

Á sama máli var Jón Guðmundsson, yfirkennari við MR. „Ég tel enga ástæðu hafa verið til breytinga á stafsetningunni.“

Gunnar Finnbogason, sem titlaður var cand. mag., var öllu sáttari og sagði breytingarnar eðlilegar.

Erlendur Jónsson íslenskukennari tók í sama streng og benti á að fjöldi rithöfunda hafi til að mynda alls ekki notað zetuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×