Erlent

Tyrknesku pari var synjað um bráðaaðstoð

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði beiðni Tyrkjanna.
Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði beiðni Tyrkjanna. vísir/epa
Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði í síðustu viku beiðni tveggja Tyrkja um að hlutast til um að þau verði leyst úr haldi tyrkneskra stjórnvalda, vegna bráðrar lífshættu.

Grunnskólakennari og bókmenntafræðingur, Semih Ozakca og Nuriye Gulmen, eru meðal tugþúsunda opinberra starfsmanna sem misstu vinnuna í kjölfar valdaránstilraunar­innar í Tyrklandi í fyrra. Parið hóf hungurverkfall 9. mars síðastliðinn, var handtekið hálfum mánuði síðar og bíður ákæru fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum. Vitnisburðir tyrkneskra lækna segja ástand þeirra lífshættulegt en þau hafa verið í hungurverkfalli í tæpa 5 mánuði. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur heimild á grundvelli 39. gr. málsmeðferðarreglna dómsins, til að grípa inn í með bindandi úrskurði ef einstaklingar sem reka mál fyrir dómstólnum eru í bráðri hættu vegna ráðstafana aðildarríkja.

Það var niðurstaða dómsins að varðhaldið sé parinu ekki lífshættulegt. Þeim tilmælum er beint til tyrkneskra stjórnvalda að tryggja parinu fullnægjandi aðstoð vegna daglegra þarfa enda lifi það ekki af hjálparlaust. Þá er því eindregið beint til Ozakca og Gulmen að þau bindi enda á hungurverkfall sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×