Lífið

Kurteis amma slær í gegn á Facebook

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það er aldrei nógu mikið af kurteisi og þakklæti í veitingageiranum.
Það er aldrei nógu mikið af kurteisi og þakklæti í veitingageiranum. Skjáskot/getty
Kurteisi kostar ekki neitt. Því fengu meðlimir Facebook-hópsins Matartips að kynnast af eigin raun í gærkvöldi þegar María Júlía Sigurðardóttir fékk inngöngu í hópinn.

Matartips er vettvangur fyrir fólk til að koma með spurningar og ráðleggingar er lúta að veitingastöðum og matargerð. Meðlimir hópsins eru nú rúmlega 20 þúsund talsins og eru þeir orðnir vanir því að fólk komi þangað inn til að hella úr skálum reiði sinnar eftir misgóðar máltíðir.

Það var því sem ferskur andblær þegar Maríu var veitt innganga í hópinn í gærkvöldi. Hún var ekki lengi að láta að sér kveða og þakkaði pent fyrir að hafa fengið inngöngu í þennan vinsæla Facebookhóp.

Þrátt fyrir að færsla Maríu, sem sjá má hér að neðan, hafi einungis verið 3 orð vöktu þau gríðarlega lukku. Á þriðja hundrað manns hafa lækað færslu Maríu og ljóst að kurteisin og þakklætið snerti streng í hjörtum netverja.

María segir í umræðum við færsluna ekki hafa getað gert sér í hugarlund að færsla hennar myndi vekja slík viðbrögð. Sólveg E. Oddsdóttir, sem blandar sér í umræðuna, segir þau þó skiljanleg - það er ekki á hverjum degi sem fólk þakkar fyrir sig.

„Ég er svo vel upp alin,“ segir María glettin og bætir við að hún hafi hreinlega aldrei fengið svona mörg læk. Og það bara fyrir að segja „Takk fyrir.“

María Júlía var gáttuð á viðbrögðunum.skjáskot





Fleiri fréttir

Sjá meira


×