Doktor Ragnhildur Finnbjörnsdóttir, loftslagssérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir þá sem deyja ekki vera heilbrigða heldur einstaklinga sem eru veikir fyrir. Það flýti fyrir dauða þeirra.

Samkvæmt lögum gefur umhverfis- og auðlindaráðherra út áætlun um loftgæði til 12 ára. Umhverfisstofnun hefur unnið drög að áætlun til 2030 að höfðu samráði við heilbrigðisnefndir sveitafélaga, Samtök atvinnulífsins og fleiri.
Í áætluninni eru tvö markmið sett fram til að endurspegla það meginmarkmið að viðhalda góðum loftgæðum á Íslandi. Í skýrslunni kemur fram að heildarkostnaður sem fellur til vegna aðgerðanna sé að lágmarki 324,5 milljónir króna.
Fyrsta markmiðið er að fækka árlegum ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar á Íslandi úr 80 í færri en fimm fyrir árið 2030.
Annað markmið er að fækka árlegum fjölda daga þar sem svifryk fer yfir skilgreind heilsufarsmörk af völdum umferðar úr 7-20 skiptum niður í núll skipti fyrir árslok 2030.
Í áætluninni eru settar fram þrettán aðgerðir sem ráðast mætti í til að ná fram fyrra markmiðinu og sjö aðgerðir sem ráðast mætti í til að ná seinna markmiðinu.
Ragnhildur segir að ein stærsta aðgerðin sé að koma upp loftgæðaupplýsingakerfi. „Þar getum við spáð fyrir í framtíðinni um gæði andrúmsloftsins næstu daga. Þetta verður nokkurs konar veðurspá næstu tvo daga fram í tímann,“ segir Ragnhildur. Þá geti fólk tekið ákvarðanir um líf sitt á grundvelli þeirra spáa.
„Ef þú ert að fara út að skokka næstu daga þá geturðu athugað hvernig loftgæðin verða á þessum tíma sem þú ætlaðir að fara að skokka,“ nefnir Ragnhildur sem dæmi.