Erlent

Le Pen rannsökuð fyrir fjármálamisferli

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Marine Le Pen laut í lægra haldi fyrir Emmanuel Macron í forsetakosningunum í Frakklandi fyrir skömmu.
Marine Le Pen laut í lægra haldi fyrir Emmanuel Macron í forsetakosningunum í Frakklandi fyrir skömmu. Vísir/AFP
Marine Le Pen, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar, liggur undir grun fyrir meint fjármálamisferli. Málið er í formlegri rannsókn. BBC greinir frá.

Fjármálamisferlið er tengt Evrópuþinginu en þingið grunar að um fimm milljónir evra hafi verið greiddar aðstoðarmönnum Þjóðfylkingarinnar, stjórnmálaflokks Le Pen. Talið er að aðstoðarmennirnir hafi í raun ekki starfað fyrir þingmenn Evrópuþingsins heldur notað fjármunina til vinnu fyrir Þjóðfylkinguna.

Bæði Þjóðfylkingin og Le Pen neita öllum ásökunum. Þá segir Le Pen málið hvatt áfram af pólitískum öflum. Greiðslurnar eru raktar allt til ársins 2012 og tengjast Le Pen sjálfri auk annarra þingmanna Evrópuþingsins, sem einnig starfa innan Þjóðfylkingarinnar.

Ásakanirnar komu fyrst fram í lok apríl, rétt fyrir seinni umferð forsetakosninganna í Frakklandi. Le Pen neitaði að svara spurningum varðanda málið á meðan kosningabaráttunni stóð en sagðist myndu vera samvinnuþýð eftir að kosningunum lyki.

Þjóðfylking Le Pen hefur gagnrýnt Evrópuþingið harðlega í gegnum tíðina. Sérfræðingur BBC í París sagði flesta kjósendur flokksins nú þegar uggandi í garð Evrópuþingsins og taldi ekki líklegt að þeir líti málið sérstaklega alvarlegum augum.


Tengdar fréttir

Bandalag Macron fékk um þriðjung atkvæða

Nýr flokkur Emmanuel Macron hlaut þriðjung atkvæða í fyrri umferð frönsku þingkosninganna í gær og gæti náð afgerandi meirihluta í þinginu. Sósíalistaflokkur fráfarandi forseta galt afhroð og tapar hátt í 200 þingsætum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×