Innlent

Hótaði lögreglumönnum og börnum þeirra lífláti

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Héraðsdómur Suðurlands er staðsettur á Selfossi.
Héraðsdómur Suðurlands er staðsettur á Selfossi. Vísir/Rósa
Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann í tíu mánaða fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og þrjú brot gegn valdstjórninni. Brotin áttu sér stað frá 6. september 2015 til 15. desember 2016.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa þann 6. september 2015 slegið mann með glerflösku í höfuðið þannig að flaskan brotnaði og maðurinn hlaut fjóra skurði á höfuðið.

Þann sama dag þegar lögregla var að færa manninn í fangaklefa sparkaði hann í nárann á lögreglumanni þegar annar lögreglumaður hafai ætlað að losa af honum handjárn, en atvikið náðist á myndband í öryggismyndavél á lögreglustöðinni á Selfossi.

Þriðja brotið átti sér stað þann 20. nóvember 2016 þegar maðurinn var í fangaklefa vegna annars máls sem meðal annars hafði varðað íkveikju á almannafæri. Maðurinn sást í öryggismyndavél hafa verið með kveikjara falinn í sokknum sínum og verið að kveikja eld í klefa sínum. Hafi þá lögreglumenn farið í klefann, fært manninn í viðurkennd lögreglutök og fundið kveikjarann. Þegar þeir hafi verið á leið út úr klefanum hafi maðurinn hótað börnum þeirra lífláti og sagt að hann myndi „senda menn til að ganga frá þeim.“ Hann hafi svo kallað á eftir þeim að börnin þeirra myndu hafa verra af.

Þann 15. desember 2016 voru lögreglumenn að flytja manninn með lyftu niður á fangagang á lögreglustöðinni á Selfossi, en hann hafði þá verið handtekinn vegna annars máls. Í lyftunni hafi hann byrjað að hreyta í þá fúkyrðum og hótað þeim orðrétt „að hann muni ganga frá okkur, hann fengi menn til þess“.

Í dómnum segir einnig að hann hafi þegar lögreglumenn hafi tekið hann lögreglutökum í klefa náð að losa hægri hönd sína og kýla í innanvert hægra læri annars lögreglumannsins.

Sem fyrr segir var maðurinn, sem hefur ítrekað verið dæmdur í fangelsi fyrir ýmis brot, dæmdur til tíu mánaða fangelsisvistar. Þá var honum einnig gert að greiða allan sakakostnað, alls rúmlega eina milljón króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×