Innlent

Dósirnar sem reynt var að koma í verð vógu hálft tonn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dósirnar voru pressaðar en samanlagt vógu þær 450 kíló eða tæpt hálft tonn.
Dósirnar voru pressaðar en samanlagt vógu þær 450 kíló eða tæpt hálft tonn. Vísir/Anton Brink
Karlmennirnir tveir sem handteknir voru í gær þegar þeir reyndu að koma pressuðum áldósum í verð í endurvinnslunni sögðust hafa fundið dósirnar. Þetta kom fram í yfirheyrslum yfir mönnunum í gær hjá lögreglu.

Þeim hefur verið sleppt en um er að ræða hælisleitendur frá Makedóníu um þrítugt samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Kópavogi.

Vísir fjallaði um þjófnaðinn í gær en mennirnir stálu dósunum í endurvinnslustöðinni á Dalvegi snemma í gærmorgun. Dósirnar höfðu verið pressaðar og voru geymdar utandyra. Samanlagt vógu dósirnar 450 kíló en verðmæti þeirra var um 1200 þúsund krónur.

Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni í Kópavogi, segir það hafa vakið athygli starfsmanna endurvinnslunnar í Knarravogi þegar mennirnir mættu með pressaðar dósir. Var hringt í lögreglu sem mætti og handtóku mennina.

Mennirnir verða kærðir fyrir þjófnað og fer málið sína leið í kerfinu að sögn Gunnars.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×