Lífið

Ókunnug kona fékk brjóstadúskasendingu Margrétar: „Við þurfum brjóstadúskana okkar meira en þú“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Margrét leitar nú að ókunnugri konu sem fékk sendingu af brjóstadúskum sem hún hafði pantað.
Margrét leitar nú að ókunnugri konu sem fékk sendingu af brjóstadúskum sem hún hafði pantað. Vísir/Eyþór/Margrét Maack
„Ég er búin að hlæja og gráta til skiptis frá klukkan sex,“ segir fjöllistakonan Margrét Erla Maack í samtali við Vísi. Margrét leitar nú að ókunnugri konu sem fékk sendingu af brjóstadúskum sem hún hafði pantað. Hún viðurkennir að atvikið sé óneitanlega skondið en að hún vilji gjarnan fá brjóstadúskana sem fyrst.

„Þetta eru brjóstadúskar sem við ætluðum að nota til sölu og þegar þeir komu ekki í síðustu viku, fyrir fyrstu sýningu, þá hugsuðum við að þeir kæmu í þessari viku og að þetta væri ekkert mál. fullt af fólki skráði sig á biðlista og báðu um að haft yrði samband þegar þeir kæmu. Svo fékk ég sendingu í dag frá þessu póstburðarfyrirtæki. Ég hélt að þeir væru í þessari sendingu og það voru þeir ekki heldur aðrir búningar,“ segir Margrét.

Þegar hún hafi farið að grennslast fyrir um sendinguna hafi komið í ljós að kona að nafni Jóhanna, sem líklega er búsett utan höfuðborgarsvæðisins, hafi kvittað fyrir sendingunni.

„Þetta eru 82 stykki, 41 par. Þannig að þetta er nokkuð mikill lager. Það er ekki hægt að fá þetta hér á Íslandi þannig ég get ekki hlaupið og reddað þessu. Líka því þetta eru góðir dúskar, þeir eru með lími á svo maður þurfi ekki að líma sjálfur. Þetta er frekar mikið mál. Núna er „burlesque“ líka orðið rosalega vinsælt í gæsapartýum og svoleiðis og síðustu helgi þá þurfti ég að breyta allri dagskránni því þeir voru ekki komnir til landsins og það slapp alveg. Svo eru fullt af giggum næstu helgi sem eru líka í hættu og gæsapartý „seasonið“ er í hámarki núna,“ segir Margrét.

Dúskarnir nauðsynlegir í gott gæsapartý

Hún segist hafa pantað töluvert magn af slíkum dúskum í apríl síðastliðnum og talið að þeir gætu enst henni út október en að þeir hafi klárast fyrir um þremur vikum.

„Ég gef gæsinni alltaf par og svo eru vinkonurnar mjög æstar að kaupa. Þetta er hluti af því að geta gert skemmtilegt gæsapartý,“ segir Margrét.

„Mér finnst þetta líka bara ógeðslega fyndið. Það er einhver kona sem fékk pakka og hugsaði „geggjað, var ég að fá afmælisgjöf?“ og í pakkanum er 41 par af brjóstadúskum. Vinur minn sagði að hún héldi kannski að þetta væru þjóðbúningadúkkuhúfur og að hún sitji núna sveitt að sauma þjóðbúningadúkkur, því þetta er svona eins og lítil skotthúfa. Þetta er ógeðslega fyndið, hvað á ein kona að gera við þetta allt? Hvað er hún með margar geirvörtur? Maður veit það svosem ekki en ég efast um að hún sé með 82.“

Hún segist mjög forvitin um hvaða kona fékk óvæntu sendinguna af dúskum og segir að þegar hún hafi upp á henni verði húna ð fá mynd af þeim saman með dúskana, en vilji þó fá þá sem fyrst.

„Það er nemendasýning hjá mér í kvöld þar sem við ætluðum að kenna og selja því þetta er dýrt sport og þær ætluðu að kaupa sér búninga fyrir söluandvirðið,“ segir hún.

Aðspurð hvaða skilaboðum hún vilji koma áleiðis til hinnar dularfullu Jóhönnu segir Margrét að enginn sé í fýlu.

„Þetta er allt of fyndið til þess en við þurfum brjóstadúskana okkar meira en þú. En ef hún vill þá get ég boðið henni á námskeið eða boðið henni á sýningu ef hún er forvitin um það sem leyndist í pakkanum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×