Skoðun

Framandi framtíðarstörf

Heiðrún Lind Marteinsdóttir skrifar
Fyrir nokkru birti PriceWaterhouseCoopers í Bretlandi skýrslu um efnahagshorfur þar í landi. Ein meginniðurstaða skýrslu þessarar var sú að 30% núverandi starfa í Bretlandi verði fyrir áhrifum sjálfvirkni á næstu 15 árum. Hin aukna sjálfvirkni felst þá í aukinni nýtingu vélmenna og gervigreindar til að leysa verkefni sem manneskjan hefur til þessa haft með höndum. Talið er að 38% starfa í Bandaríkjunum og 35% starfa í Þýskalandi verði fyrir sambærilegum áhrifum á þessu sama tímabili.

Þær atvinnugreinar sem taldar eru að verði fyrir mestum áhrifum tækniframfara eru flutningar, framleiðsla, heildsala og smásala. Hefðbundin karlastörf eru líklegri til að verða fyrir áhrifum en kvennastörf og störf sem krefjast aukinnar menntunar eru ólíklegri til að verða fyrir áhrifum sjálfvirkni heldur en störf sem krefjast lítillar menntunar.

Þess skal getið að háskólamenntun er ekki trygging fyrir því að störf þess fólks verði ónæm fyrir aukinni tækni. Sem dæmi má nefna að fyrir nokkru voru sagðar af því fréttir í Bandaríkjunum að lögmenn gætu orðið næsta starfsstétt þar sem tölvur leystu fólk af hólmi. Nú er meðal annars unnt að nýta gervigreind til að gefa rökstudda niðurstöðu lögfræðilegra álitamála, þar sem vísað er til lagaákvæða, dómafordæma og fræða. Þessa þróun sáu fáir fyrir.

Um 205.000 manns eru á íslenskum vinnumarkaði. Verði þróunin hér á landi sambærileg þeirri sem er fyrirséð í Bretlandi og víðar, má áætla að um 60.000 störf verði fyrir verulegum áhrifum sjálfvirkni á næstu 15 árum. Þetta er ótrúlega hröð þróun á skömmum tíma og mikilvægt er að vera undir hana búin. Atvinnurekendur verða að huga að endurmenntun og aðlögun þeirra starfsmanna sem verða fyrir áhrifum sjálfvirkni og á stjórnvöldum hvílir að mennta komandi kynslóðir í skapandi og gagnrýninni hugsun.

Þó enginn geti með nákvæmni sagt hvert verði eðli starfa í framtíð, þá er í öllu falli ljóst að sú tæknibylting sem þegar er komin á fleygiferð kallar á víðtæka tækni- og iðnmenntun. Boltinn er því hjá menntakerfinu og nú ríður á að glutra ekki úr höndum okkar einstöku sóknarfæri.

Höfundur er framkvæmdastjóri SFS og FKA-félagskona.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.