Innlent

Mál­flu­tningur lýð­skrumara í Sjálf­stæðis­flokknum fá­fræði eða mis­skilningur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úlfarsárdalur er eitt þeirra hverfa sem Sjálfstæðismenn vilja leggja ríkari áherslu á. Gísli bendir á að Reykvíkingar eru mótfalnir þeirri forgangsröðun.
Úlfarsárdalur er eitt þeirra hverfa sem Sjálfstæðismenn vilja leggja ríkari áherslu á. Gísli bendir á að Reykvíkingar eru mótfalnir þeirri forgangsröðun. Vísir
Sjálfstæðismenn í Reykjavík vilja ekki einungis hverfa frá stefnu sem samþykkt var í borgarstjórn með 80% atkvæða heldur bæta um betur og beinlínis berjast gegn búsetuóskum Reykvíkinga.

Í stað þess að þétta byggð til vesturs, sem kannanir bendi til að samræmist óskum Reykvíkinga, vilji Sjálfstæðismenn heldur leggja áherslu á útþenslu Reykjavíkur með tilheyrandi kostnaði, mengun, óþægindum og vandamálum sem „allir munu tapa á.“

Þetta er mat fyrrum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Gísla Marteins Baldurssonar, eftir lestur á samþykktum Reykjavíkurþings Sjálfstæðismanna sem fram fór á dögunum.

Sjá einnig: Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur samþykkt með tólf atkvæðum gegn þremur

Þar samþykkti flokkurinn að stefna að „tafarlausri endurskoðun á núgildandi aðalskipulagi Reykjavíkur“ þar sem leitað yrði „betra jafnvægis í þéttingu byggðar og nýrra byggingarsvæða.“ Í því samhengi nefna Sjálfstæðismenn nýtingu „byggingarlands austan Elliðaáa, í Grafarvogi, Úlfarsárdal, Gufunesi, Geldinganesi og Kjalarnesi.“

 

Niðurstöður könnunar sem Gísli vísar til.Borgarbragur
Núgildandi aðalskipulag Reykavíkur, sem stefnir framtíðarbyggð í borginni inn á við og reynir að sporna við útþenslu borgarinnar, var samþykkt í nóvember 2013 með 12 atkvæðum, þar af tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks, gegn þremur. Unnið hafði verið að stefnunni í 7 ár.

„Ástæða þessarar stefnu er ekki aðeins sú að þetta er umhverfisvænna, ódýrara og vænlegra fyrir þau hverfi sem fyrir eru, heldur er ástæðan líka sú að borgarbúar vilja ekki útþenslustefnuna,“ segir Gísli á bloggi sínu og vísar í rannsóknir sem sýna fram á að flestir borgarbúar vilja búa vestan Elliðaáa.

„Raunar er það svo, sýna kannanir, að fleiri búa austan Elliðaáa en vilja það,“ útskýrir Gísli með vísan til fyrrnefndra niðurstaðna sem má glöggva sig á hér til hliðar.

Ný úthverfi kostnaðarsamari en þétting og uppfull af vandamálum

Ástæðurnar fyrir þessum vilja borgarbúa, sem birtist í könnunum, segir Gísli vera til marks um að fólk sé skynsamt.

„Ástæðan er einfaldlega sú að fólk er komið með nóg af löngum ferðalögum til og frá vinnu, það er búið að átta sig á því að bílaumferð skemmir borgina og veldur banvænni mengun,“ segir Gísli.

Því væri það „algjört glapræði fyrir borgarstjórn“ að hans mati að byggja ný úthverfi utan núverandi byggðar.

„Ný úthverfabyggð er ekki lausn heldur upphaf að fjölmörgum nýjum vandamálum — og alveg sama hversu erfitt ástand er á íbúðamarkaði þessa mánuðina er mjög mikilvægt að við freistumst ekki til að taka slíka ákvörðun,“ segir Gísli og bendir á að á slíkri ákvörðun myndu allir tapa.

Tólf borgarfulltrúar greiddu atkvæði með núverandi aðalskipulagi en þrír á móti. Vísir/Anton
 „Mest þeir sem nú þegar búa í Úlfarsfelli, Grafarvogi og fleiri hverfum austast, því þeir munu fá hraðbrautir í gegnum hverfin sín og aukna umferð á umferðaræðarnar vestureftir, sem þegar eru sprungnar.“

Gísli súmerrar upp úthverfastefnu Sjálfstæðismanna og segir henni fylgja meiri mengun, fleiri slys, sé kostnaðarsamari fyrir íbúana og hið opinbera en að þétta byggðina eins og til stendur. Þá vandar hann „lýðskrumurnum“ sem segi þéttingu byggðar vera „allt of dýra,“ ekki kveðjurnar og segir skoðanir þeirra annað hvort vera fáfræði eða misskilning.

„Þétting byggðar er margfalt ódýrari en dreifing hennar — um það vitna ótal rannsóknir sem gerðar hafa verið á því (sjá til dæmis hér og hér og hér) það er sorglegt að kjörnir fulltrúar í borginni og á Alþingi skuli ekki hafa áhuga eða metnað til að þekkja slík grundvallaratriði.“

Þá þykir honum skjóta skökku við að Sjálfstæðisflokkurinn segist í ályktun sinni vilja standa vörð um græn og opin svæði í borginni.

Sjá einnig: Borgarmynd Reykjavíkur breytist umtalsvert gangi áætlanir eftir

„Hvað er Geldingarnesið? Er það ekki grænt og opið svæði? Og hlíðar Úlfarsfells upp að Hafravatni, þar sem Sjálfstæðismenn vilja byggja? Er það ekki vinsælt útivistarsvæði sem blánar af berjum hvert ár?“ spyr Gísli.

„Græn og opin svæði eru einmitt fórnarlömb útþenslustefnunnar, ásamt góðu borgarlífi, hreinu lofti, minni umferð og fjölda mörgu öðru sem allur heimurinn veit að er ástæða þess að allar metnaðarfullar borgir á Vesturlöndum eru að þétta byggðina frekar en að dreifa henni.“


Tengdar fréttir

Nýtt aðalskipulag samþykkt í Reykjavík

Aðalskipulag Reykjavíkur til 2030 var samþykkt í gær. Þétting byggðar er meginmarkmið. Sjálfstæðisflokkurinn klofinn í afstöðu sinni til nýja skipulagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×