Lífið

Krúttlegar kindur slá í gegn

Sigríður Inga Sigurðardóttir skrifar
Guðveig Jóna bjóst ekki við að kindurnar vektu jafn mikla athygli og raun varð á. MYND/GVA
Guðveig Jóna bjóst ekki við að kindurnar vektu jafn mikla athygli og raun varð á. MYND/GVA
Ástæðan fyrir því að þær vinkonurnar prjónuðu kindurnar var einfaldlega sú að þær langaði að finna verkefni sem þær gætu unnið saman í hópi
Guðveig Jóna hefur verið í saumaklúbbi með fyrrum samstarfskonum sínum á Hótel Óðinsvéum í nær tvo áratugi. Þær eru alltaf með eitthvað skemmtilegt á prjónunum og nú síðast prjónuðu þær kindur sem urðu samstundis frægar á internetinu.



„Ég setti til gamans mynd af kindunum inn á facebook-síðu sem heitir Handóðir prjónarar og þær vöktu svakalega athygli, sem ég átti ekki von á. Þær eru ofsalega flottar og skemmtilegar og margir hafa haft samband við mig og vilja gjarnan fá uppskriftina,“ segir Guðveig, sem einnig hefur fengið ótal beiðnir um að prjóna kindur og selja. Hún segist þó ekki hafa áhuga á að fjöldaframleiða kindina, sem hægt er að nota sem púða eða einfaldlega til að prýða heimilið, þótt eftirspurnin sé mikil.

Kindin er bandarísk

Ástæðan fyrir því að þær vinkonurnar prjónuðu kindurnar var einfaldlega sú að þær langaði að finna verkefni sem þær gætu unnið saman í hópi. „Ég fór á netið að skoða prjónauppskriftir og fann þessa tilteknu uppskrift á bandarískri vefsíðu. Mér leist strax vel á hana og þýddi uppskriftina á íslensku og svo prjónuðum við þessar kindur í sameiningu og hjálpuðumst að. Ég hafði samband við hönnuðina og þá sem voru með uppskriftina á heimasíðu sinni úti í New York í kjölfar þess að fleiri vildu fá uppskriftina og fékk leyfi til að þýða hana á íslensku og deila henni áfram.“





Undanfarin ár hefur Guðveig Jóna tekið þátt í Handverkshátíð Eyjafjarðar.
Unnu saman í gamla daga

Saumaklúbburinn á sér langa sögu en hann varð til eftir að þær stöllur hættu störfum hjá Hótel Óðinsvéum fyrir mörgum árum en vildu þó halda áfram hópinn. „Við hittumst á þriggja vikna fresti og höfum lengi haldið vinskap. Tilgangurinn er einfaldlega að hittast, rækta vináttuna og spjalla um daginn og veginn. Við erum misduglegar að prjóna en við höfum farið saman á saumanámskeið og svo lærum við heilmikið hver af annarri. Núna erum við að byrja að prjóna sjöl eftir sömu uppskrift. Fyrir nokkrum árum féll ein úr klúbbnum frá eftir veikindi og ein okkar ákvað að prjóna aukalega kind í minningu hennar,“ segir Guðveig, en auk hennar eru þær Þórunn Guðmundsdóttir, Oddrún Sverrisdóttir, Elín Ryan, Viktoría Dagbjartsdóttir og Guðrún Rut Gunnlaugsdóttir í saumaklúbbnum.

Hannar töskur

Guðveig er mikil prjónakona og hefur alltaf haft áhuga á handverki. Hún vinnur við bókhald á daginn en sinnir áhugamálinu þegar tími vinnst til, helst um kvöld og helgar. „Ég hef verið að hanna og sauma töskur úr leðri, roði og góbelíni í nokkur ár og er með sölusíðu á Facebook undir nafninu mínu. Ég hef nokkrum sinnum verið með bás á Handverkshátíð Eyjafjarðar, ásamt Eddu Ásvaldsdóttur, mágkonu minni, sem er líka að hanna og sauma töskur. Við lærðum báðar réttu handtökin hjá tengdamóður minni, Eddu Jónsdóttur, sem var brautryðjandi í þessu á sínum tíma. Ég hef mjög mikla ánægju af þessu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×