Innlent

Íslenskt fyrirtæki vildi að 250 milljóna veðmálatap kæmi til skattafrádráttar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Tap fyrirtækisins vegna veðmálanna nam um 250 milljónum króna.
Tap fyrirtækisins vegna veðmálanna nam um 250 milljónum króna.

Spákaupmennskufyrirtæki fær ekki að gjaldfæra 250 milljóna króna tap sem fyrirtækið segir að hafi komið til vegna veðmála um íþróttaleiki í gegnum veðmálasíðuna betfair.com. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar sem staðfesti niðurstöðu ríkisskattstjóra þessa efnis.

Í kæru fyrirtækisins til yfirskattanefndar kemur fram að fyrir hrun hafi það stundað viðskipti sem fólust í spákaupmennsku með erlenda gjaldmiðla. Slík viðskipti séu í eðli sínu veðmál um þróun gengis út frá ákveðnum forsendum. Eftir hrunið dróst starfsemi þess saman meðal annars vegna gjaldeyrishaftanna. Brá eigandi þá á það ráð að afla tekna með þátttöku í erlendri getraunastarfsemi. Vildi eigandinn meina að veðmálin hefðu verið liður í starfsemi hans og því ætti að vera heimilt að telja tapið inn í reksturinn.

Yfirskattanefnd taldi hins vegar að fyrirsvarsmaður félagsins hefði stofnað veðmálareikninginn í eigin nafni og veðjað á körfubolta og knattspyrnu í eigin nafni. Til þess notaði hann viðskiptakort félagsins.

Þá þótti ekki unnt með nokkru móti að fallast á það að veðmál á íþróttaleiki teldust fjármálagerningar í skilningi laga um verðbréfaviðskipti. Að endingu var bókhaldi félagsins um veðmálastarfsemina ábótavant. Af þeim sökum var ekki fallist á það að veðmálin tengdust félaginu með nokkru móti og niðurstaða ríkisskattstjóra staðfest.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.