Innlent

Hnífstungan á Metro: Annar hinna handteknu í fjögurra vikna gæsluvarðhald

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Blóðslettur voru úti um allt gólf á veitingastaðnum eftir árásina.
Blóðslettur voru úti um allt gólf á veitingastaðnum eftir árásina. Loftmyndir.is
Sautján ára karlmaður hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna grunaður um að hafa stungið annan mann fyrir utan veitingastaðinn Metro í Kópavogi í gær. Lögreglan fór fram á vikulangt varðhald, að því er greint er frá á vef RÚV.

Tveir menn voru handteknir vegna málsins í gær, báðir á tvítugsaldri, en hvorugur þeirra hefur komið við sögu lögreglu áður. Öðrum þeirra var sleppt.

Í samtali við Vísi fyrr í dag sagði Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn að svo virðist sem ekki séu tengsl á milli árásarmannanna og mannsins sem var stunginn en hann hlaut alvarlega áverka og var fluttur á gjörgæslu í kjölfar árásarinnar. Hann er ekki í lífshættu.

Nokkur vitni voru að árásinni, bæði gestir veitingastaðarins og starfsmenn hans. Þó nokkrir hafa verið yfirheyrðir í tengslum við rannsókn málsins sem er langt kominn.

Einn starfsmanna Metro sem var á vakt í gærkvöldi þegar árásin átti sér stað sagði í samtali við Vísi að hún hafi verið að þrífa þegar hún heyrði manninn reka upp öskur. Hún hafi svo komið fram og þá hafi verið blóð úti um allt.

Mennirnir tveir voru handteknir um klukkutíma eftir að árásin varð, annar mannanna var handtekinn á Ártúnshöfða en hinn við Smáraskóla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×