Lífið

Glæsikjólar Ellyjar vakna á ný

Elín Albertsdóttir skrifar
Stefanía búningahönnuður með tvo glæsikjóla sem saumaðir voru í leikhúsinu.
Stefanía búningahönnuður með tvo glæsikjóla sem saumaðir voru í leikhúsinu. MYND/GVA
Stefanía Adolfsdóttir er búningahönnuður hinnar vinsælu sýningar um Elly í Borgarleikhúsinu. Hún ber ábyrgð á glæsilegum kjólum söngkonunnar sem vekja mikla athygli áhorfenda. Kjólarnir voru saumaðir fyrir sýninguna.

Stefanía segir það hafa verið einstaklega skemmtilegt að vinna við þetta verkefni sem hafi verið í senn krefjandi og áhugavert. „Það var nokkuð langur undirbúningur fyrir þessa sýningu. Við byrjuðum að huga að búningum síðasta vor og hugmyndavinnan var alltaf með manni. Ég byrjaði á því að fara yfir allar myndir sem ég gat komist yfir af Elly og samferðafólki hennar. Ég skoðaði gömul blöð og Ljósmyndasafn Reykjavíkur lánaði mér myndir. Síðan var það ég og búningadeildin sem saumuðum kjólana,“ segir Stefanía en hún er forstöðumaður deildarinnar. Með henni starfa þrír sprenglærðir klæðskerar og kjólameistarar.

Tískusýning á sviði

„Það er ekki oft sem við fáum tækifæri til að sauma glæsikjóla en það var ótrúlega gaman. Við notuðum falleg efni í kjólana sem leikkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir ber einstaklega vel. Mér fannst líka svo gaman að sauma fatnað sem spannar svona breytt tímabil, frá 1955-1995. Tískan breytist ótrúlega mikið á þessum tíma auk þess sem við fylgjum þroska hennar og ferli í gegnum verkið. Leikmyndin breytist ekki og búningar skipta því miklu máli í leikgerðinni. Þannig eru búningar hljómsveitarmannanna hluti af því að sýna hvað tíminn líður,“ útskýrir Stefanía.

Hún segir að það sé vissulega hægt að kaupa gamla kjóla á ebay en hún vildi búa til sína eigin kjóla fyrir þessa sýningu. „Við vildum hafa kjólana eins raunverulega og mögulegt var. Tveir kjólar í sýningunni eru mjög líkir þeim sem Elly átti þegar hún var að koma fyrst fram. Við lögðum áherslu á okkar eigið handbragð í sýningunni sem síðan býr til ákveðna heildarmynd. Flestir kjólarnir voru saumaðir hér, tvo fundum við í búningasafni leikhússins. Allir flottustu kjólarnir urðu til á saumastofunni okkar,“ segir Stefanía.

Þrír snillingar starfa í búningadeild Borgarleikhússins auk Stefaníu, þær Maggý Dögg Emilsdóttir, Elma Bjarney Guðmundsdóttir og Ingunn Lára Brynjólfsdóttir. MYND/GVA
Leit að efnum

Engir kjólar eru lengur til sem Elly átti. Stefanía segist hafa búist við í upphafi að hún þyrfti að gera sér ferð til London til að kaupa efni í kjólana. „Síðan fann ég í safninu okkar tvo gamla efnisstranga sem hentuðu mjög vel. Efnið var frá sjötta áratugnum og það var sérstaklega gaman að sauma úr því. Það gerði kjólinn svo eðlilega gamlan. Ég átti síðan leið til Berlínar í einkaerindum og rakst á efni þar sem ég tók með mér heim. Það er ekki mikið úrval hér á landi af svona efnum en ég fann samt í tvo kjóla. Ég litaði það og meðhöndlaði þannig að það leit út fyrir að vera gamalt,“ segir Stefanía en samtals eru átján búningar sem Elly ber á sviðinu.

Katrín Halldóra Sigurðardóttir í hlutverki Ellyjar á sviði. Passað er upp á hvert smáatriði, kjól, förðun, hárgreiðslu og hanska.
Tjull og brjóstasaumar

Á sjötta áratugnum voru kjólar stangaðir sérstaklega yfir brjóst og mikið tjull var undir þeim. Stefanía segir að þær hafi farið algjörlega eftir gömlum sniðum og leiðbeiningum þessa tíma. „Við lögðum mikla vinnu í að stúdera kjólana og sniðin. Það er ótrúlega hæfileikaríkt fólk hér á búningadeildinni sem á langt nám að baki í sníðagerð, búningasögu og kjólasaum og getur framkallað kraftaverk fyrir hverja sýningu. Tjullpilsin pöntuðum við reyndar að utan. Okkur fannst ákaflega krefjandi að ná búningum þannig að áhorfendur gætu ferðast um tímann. Ég kveið mest fyrir að gera fötin frá níunda áratugnum. Það lukkaðist vel enda var Elly alltaf ákaflega elegant. Sjálf hafði hún áhuga á tísku og fylgdist vel með allt frá fyrstu tíð.“

Ör fataskipti

Stefanía segir að það hafi verið mikil gleði í vinnunni þegar þær fóru aftur á bak í tíma í kjólasaumi. „Okkur langaði til að gera meira en minna, þetta var svo gaman. Við urðum einnig að hafa í huga að Katrín Halldóra er alltaf á sviðinu og þarf að geta skipt um föt á mjög stuttum tíma. Það þarf starfsmaður að vera baksviðs í sýningunni til að hjálpa henni í skiptingum,“ segir Stefanía sem er þessa dagana að yfirfara búninga í Mamma Mia! sem er að fara aftur í sýningu. „Það er mikill fjöldi sýninga að baki og því nauðsynlegt að endurnýja og laga. Síðan förum við á búningadeildinni að vinna að sýningum næsta vetrar. Það er alltaf nóg að gera hér og aldrei verkefnaskortur. Starfið er skemmtilegt, ekkert verkefni eins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×