Innlent

Sex flugeldaslys í nótt

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Flugeldum var skotið á loft við Hallgrímskirkju í nótt.
Flugeldum var skotið á loft við Hallgrímskirkju í nótt. MYND/Böddi
Sex leituðu á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi í nótt vegna flugeldaslysa. Ekkert þeirra var þó alvarlegt en meðal annars var um minniháttar bruna að ræða og að aðskotahlutur fór í auga.

Guðrún María Svavardóttir, sérfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, segir nóttina hafa verið heldur rólegri en starfsfólk deildarinnar hafi átt von á. Fyrir utan flugeldaslysin hafi þó nokkur fjöldi fólks leitað þangað en ástæður heimsóknanna hafi verið mismunandi.

„Ein alvarleg líkamsárás og svo margir sem hafa dottið á hálku, það hefur verið mikið af því, og almenn veikindi hjá fólki,“ segir Guðrún María. Hún segir flugeldaslysin óvenju fá í ár og augljóst að fólk hafi farið varlega og notað hlífðarbúnað.

Mikill erill var hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í nótt. „Það var talsvert um svona minniháttar hnjask í heimahúsum sem við köllum. Minniháttar slys, engin alvarleg þar,“ segir Sigurbjörn Guðmundsson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir að nokkuð hafi verið um útköll þar sem eldur logaði eftir að kveikt hafði verið í flugeldarusli. Þá voru nokkur útköll tengd reyk og svifryki. „Nokkuð var um að brunaviðvörunarkerfi fóru í gang. Það var náttúrulega mikill reykur yfir öllu,“ segir Sigurbjörn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.