Erlent

Ætla að hefna sín á Bandaríkjamönnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, talar við Koro Bessho, fulltrúa Japana, og Matthew Rycroft, fulltrúa Breta, áður en fulltrúar kusu um nýjar viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu.
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, talar við Koro Bessho, fulltrúa Japana, og Matthew Rycroft, fulltrúa Breta, áður en fulltrúar kusu um nýjar viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu. vísir/epa
Stjórnvöld í Norður-­Kóreu hafa hótað því að hefna sín og láta Bandaríkin kenna á því fyrir að hafa skipulagt hertar viðskiptaþvinganir til að bregðast við kjarnorkuáætlunum þeirra.

Norður-Kóreumenn telja að viðskiptaþvinganirnar sem voru samþykktar samhljóða af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna á laugardaginn hafi verið gróft brot gegn fullveldi Norður-Kóreu.

Með aðgerðum Sameinuðu þjóðanna er markmiðið sett á að draga úr útflutningstekjum Norður-Kóreu um þriðjung. Ákvörðun um að grípa til nýrra viðskiptaþvingana var tekin eftir ítrekaðar kjarnorkutilraunir Norður-Kóreumanna sem hafa orðið til þess að auka mjög á spennuna á Kóreuskaganum að undanförnu.

BBC-fréttastofan segir frá því í gær að Norður-Kóreumenn hafi heitið því að halda áfram með kjarnorkuvopnaáætlun sína. Vísað er í ríkisfjölmiðilinn KCNA þar sem fram kemur að stjórnvöld í Norður-Kóreu muni ekki semja um kjarnorkuáætlun sína á meðan Bandaríkin ógna þeim.

Þá hóta stjórnvöld í Norður-Kóreu því að láta Bandaríkjamenn standa reikningsskil gjörða sinna þúsundfalt

Í samtali við blaðamenn á fundi í Manila, höfuðborg Filippseyja, sagði Bang Kwang Hyuk, talsmaður Norður-Kóreustjórnar, að aukin spenna á Kóreuskaganum og deilur vegna kjarnorkumála væru á ábyrgð Bandaríkjanna.

„Við staðfestum að við munum aldrei semja um kjarnorkuáætlun okkar og munum ekki gefa neitt eftir,“ segir Kwang Hyuk opinberlega.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er í Manila. Hann vakti athygli á því að bæði Rússar og Kínverjar styddu viðskiptaþvinganirnar og sagði að það þyrfti enginn að velkjast í vafa um að það væri vilji alþjóðasamfélagsins að Norður-Kóreumenn létu af kjarnorkuvopnatilraunum sínum.

Rússar og Kínverjar hafa hingað til deilt um það hvernig ætti að taka á málefnum Norður-Kóreu en á síðustu mánuðum hafa bæði ríkin hvatt til þess að kjarnorkuvopnatilraunum verði hætt. En ríkin hafa líka hvatt Bandaríkin og Suður-Kóreumenn til þess að bíða með allar varnaræfingar og draga til baka eldflaugavarnarkerfi sitt frá Suður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×