Erlent

Þriðja konan sakar Roman Polanski um kynferðisbrot

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Robin, sem sést hér til hægri á mynd, er þriðja konan sem stígur fram og sakar leikstjórann Roman Polanski um kynferðisbrot.
Robin, sem sést hér til hægri á mynd, er þriðja konan sem stígur fram og sakar leikstjórann Roman Polanski um kynferðisbrot. Vísir/AFP
Þriðja konan hefur stigið fram og sakað leikstjórann og kynferðisafbrotamanninn Roman Polanski um að hafa brotið á sér kynferðislega þegar hún var unglingur. Um er að ræða þriðja kynferðisbrotamálið gegn Polanski þar sem hann er sakaður um að hafa brotið gegn manneskju undir lögaldri.

Konan, sem hefur einungis verið nafngreind opinberlega sem „Robin“, segir Roman Polanski hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi þegar hún var sextán ára gömul. Hún steig fram á blaðamannafundi í Los Angeles í Kaliforníu í dag og sagði Polanski hafa brotið á sér árið 1973, að því er fram kemur í frétt breska dagblaðsins Guardian.

Rétt tæp fjörutíu ár eru nú liðin síðan Polanski, sem fæddist í París en átti pólska foreldra, flúði Bandaríkin eftir að hafa játað að hafa nauðgað hinni þrettán ára gömlu Samönthu Geimer. Hann var ákærður fyrir að hafa byrlað henni ólyfjan á heimili leikarans Jack Nicholson og brotið svo á henni.

Sagði ekki frá fyrr en nú vegna föður síns

„Daginn eftir sagði ég einum vini mínum frá því sem Polanski hafði gert mér,“ las Robin upp úr fyrirfram skrifaðri yfirlýsingu

„Ástæðan fyrir því, með þessari undantekningu hér, að ég hélt þessu út af fyrir mig var að ég vildi ekki að faðir minn gerði eitthvað sem gæti komið honum í fangelsi það sem eftir lifði.“

Lögfræðingur Robin, Gloria Allred, sagði Polanski hafa brotið á skjólstæðingi sínum í suðurhluta Kaliforníu en vildi ekki veita fjölmiðlum nánari upplýsingar um staðarhætti.

Þá kom fram á blaðamannafundinum í dag fram að mál Robin sé fyrnt en Allred sagði hana þó geta borið vitni í væntanlegum réttarhöldum.

Polanski hefur ítrekað neitað að snúa aftur til Bandaríkjanna nema hann fái tryggingu fyrir því að þurfa ekki að afplána fangelsisdóm. Árið 2010 sakaði breska leikkonan Charlotte Lewis Polanski um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi þegar hún var nýorðin sextán ára gömul.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×