Innlent

Aldrei áður mælst eins mikið magn grasfrjókorna á höfuðborgarsvæðinu

Ásgeir Erlendsson skrifar
Höfuðborgarbúar hafa margir hverjir fundið vel fyrir frjókornaofnæmi undanfarna daga.
Höfuðborgarbúar hafa margir hverjir fundið vel fyrir frjókornaofnæmi undanfarna daga. Vísir/Getty
Aldrei áður hefur jafn mikið magn grasfrjókorna mælst á höfuðborgarsvæðinu og í vikunni sem leið en blíðviðri undanfarinna daga er um að kenna.

Ofnæmislæknir hvetur fólk á ferðalögum að undirbúa sig vel og huga vel að því hvar tjöldum er komið niður.

Höfuðborgarbúar hafa margir hverjir fundið vel fyrir frjókornaofnæmi undanfarna daga enda hefur magn fjórkorna í lofti er með mesta móti á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt frétt á vef Náttúrufræðistofnunar má skýra háar fjórtölur vegna þess blíðviðris sem verið hefur í borginni. Í síðustu viku mældist mesta magn grasfrjókorna í Garðabæ frá því að mælingar hófust en þá voru 181 frjókorn á hvern rúmmetra í lofti.

Akureyringar hafa sloppið betur en höfuðborgarbúar en þar hefur verið frekar lítið um grasfrjókorn í sumar.

Davíð Gíslason ofnæmislæknir segir sérstaklega mikilvægt fyrir fólk með slíkt ofnæmi að undirbúa sig vel fyrir ferðalög úti í náttúrunni og hugsa um hvar tjöldum og fellihýsum er komið fyrir.

„Þetta er út af því að veðrið hefur verið sérstaklega gott í allt sumar og það mældist ansi mikið snemma í júlí. Svo kom rigning um daginn og þegar þornar upp eftir svona rigningu, sérstaklega ef það er einhver smá gola, ná er mikið um frjókorn í lofti.“

Hann segir ástand margra geta verið afar slæmt í ástandi eins og verið hefur undanfarna daga.

„Svo er þetta nú mesta ferðahelgin og fólk er mikið úti. Þá reynir náttúrulega ennþá meira á, svoleiðis að fólk sem er með svona ofnæmi ætti ekki að fara í ferðalög nema að vera vel útbúið. Það er gott að hafa það í huga, ef það ætlar að sofa í tjaldi, að tjald ekki í óslægju þar sem greinilega er mjög mikið frjómagn heldur að tjalda þá frekar inni á slegnum túnum,“ segir Davíð Gíslason ofnæmislæknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×